Siiri Enoranta

Siiri Enoranta
Ljósmyndari
Veikko Somerpuro
Siiri Enoranta: Kesämyrsky. Skáldsaga, WSOY, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í Queensbridge-borg fljúga allir sem á annað borð hafa ráð á því. Eldsneyti flugfaranna er hið dularfulla indígó-efni. Leyndardóm indígósins þekkja aðeins fáir útvaldir, en alla þyrstir í auðinn sem efnið færir fólki.

Hinn 13 ára gamli Andrew er með bjartan svip og staðfastan huga. Framundan er besta sumar lífs hans fram að þessu, því hann fær að fara í sumarbústað með Roy-fjölskyldunni. Amanda og Lawrence Roy og börnin þeirra tvö, hin fagra og duttlungafulla Penelope og hinn dáði Josh, eru sterkefnuð og lifa hrífandi og dularfullu lífi sem Andrew fylgist heillaður með. Sumarið er þrungið sannleik sem enginn orðar upphátt og drungalegum leyndarmálum. Faðir Andrews er geðlæknir og hefur Penelope til meðferðar, en hún er í áfalli eftir að hafa orðið vitni að morði sem skók alla borgina. Andrew dreymir um að verða náinn Josh, sem er leiðtogi hins dáða en óttalega gengis Hettumáfanna.

Kesämyrsky („Sumarstormur“, hefur ekki komið út á íslensku) er ungmennaskáldsaga sögð af mikilli málauðgi og listfengi í persónusköpun, þar sem spáskáldskapur fléttast haganlega saman við kunnugleg einkenni sveitarómantískra frásagna og skólasagna. Þetta er margslungin saga af sumri sem umbyltir öllu. Kesämyrsky er saga af fjölskyldu sem er ekki eins fullkomin og hún lítur út fyrir að vera. Þetta er saga af kraftmikilli hrifningu, sögð á listilegan hátt þannig að í forgrunni er ekki kynhneigð eða kyn heldur fyrst og fremst sterk upplifun og tilfinningar. Hún segir frá ungmennum sem leika sér að ofbeldi og sjá ekki fyrr en um seinan að leikirnir hafa gengið of langt. Bókin þvingar lesandann til að líta á skuggahliðar hinna ungu aðalpersóna, sem og hinna fullorðnu áhrifavalda í lífi þeirra. Sagan sýnir hvernig krafa um fullkomnun dregur ekki fram það besta í fólki, heldur leyfir illskunni að ná yfirhöndinni.

Í Kesämyrsky segir frá því hvernig hinn saklausi heimur bernskunnar kollvarpast á einu sumri svo að ekki verður aftur snúið. Undir fögru yfirborði leynast drungalegir undirtónar. Hinar dökku hliðar mannskepnunnar eru eins og glóðarmolar sem falla úr flugfari, sem ekki er hægt að verjast með neinu móti – en með því að mæta þeim geta ungmenni náð að þroskast og fullorðnast.

Siiri Enoranta (f. 1987) hefur gefið út níu sjálfstæðar furðusögur fyrir ungmenni. Kesämyrsky var tilnefnd til Finlandia-verðlaunanna árið 2020 í flokki barna- og unglingabóka. Enoranta hlaut Finlandia-verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka fyrir síðustu bók sína, Tuhatkuolevan kirous (2018). Enoranta er hæfileikaríkur höfundur með sérstæða rödd sem tekst ávallt að skapa nýja heima með skrifum sínum.