Norðurlandaráð kallar eftir öflugu samstarfi gegn netógnum
„Við stöndum frammi fyrir nýrri gerð glæpa, en einnig nýrri gerð hernaðar. Norðurlandaráð verður að taka forystu og sjá til þess að við séum sameinuð í þessari baráttu. Við verðum ásamt ríkisstjórnum okkar að semja norræna áætlun um það hvernig við hyggjumst takast á við þetta með sem bestum hætti,“ sagði Martin Kolberg, þingmaður í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og formaður norsku landsdeildarinnar í ráðinu.
Í erindi sínu vakti Kolberg athygli á mikilvægi víðtæks samstarfs á mörgum stigum og milli ólíkra aðila. Hann hlaut undirtektir margra annarra ræðumanna, meðal annars ráðherranna þriggja sem tóku þátt í umræðunum.
„Færni landanna og stefnu þarf að móta út frá hagsmunum hvers lands, en einnig er mikilvægt að vinna að því ásamt samstarfsaðilum á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi að fyrirbyggja og takast á við ógnir sem oft ná yfir landamæri. Hér gegnir norrænt samstarf afar þýðingarmiklu hlutverki,“ sagði innanríkisráðherra Svíþjóðar, Mikael Damberg.
Netöryggismál í forgangi
Netöryggi er sérstakt forgangssvið hjá Norðurlandaráði og málefnið var sýnilegt á þemaþingi ársins. Auk umræðnanna með ráðherrunum á miðvikudaginn voru netöryggi og fjölþættar ógnir einnig til umræðu í öðru samhengi.
Meðal annars samþykkti ráðið með miklum meirihluta atkvæða svokallað nefndarálit þar sem ráðið hvetur norrænu ríkisstjórnirnar til að móta sameiginlega afstöðu varðandi öryggisáhættu í sambandi við dreifingaraðila 5G-þjónustu.
Netöryggi er eitt af þeim sviðum sem sérstök athygli er vakin á í formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði 2021.
Í stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi frá 2019 er netöryggi einnig nefnt sem mikilvægt svið og meðal annars kallað eftir auknu samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltslandanna í netöryggismálum. Þingmönnum frá Eystrasaltslöndunum var boðið til þátttöku í umræðunum á miðvikudaginn og kölluðu þeir einnig eftir auknu samstarfi.
Samstarf hefur áhrif
Björn Bjarnason tók einnig þátt í umræðunum, en árið 2020 skrifaði hann skýrslu um stefnu Norðurlanda í utanríkis- og öryggismálum. Skýrslan inniheldur ýmsar tillögur að því hvernig þróa megi norrænt samstarf á þessu sviði, meðal annars á sviði netöryggis.
Hann lagði líka áherslu á samstarf og sagði það afar þýðingarmikið að mörg lönd fylktu liði í baráttunni gegn netógnum.
„Fælingarmáttur netvarna eykst ef reikna má með samstöðu milli grannþjóða. Gagnrýni frá fimm löndum er áhrifaríkari en frá einu landi,“ sagði Björn og lagði áherslu á mikilvægi þess að málefni netöryggis væru á dagskrá hjá Norðurlandaráði.
Norðurlandaráð kallar eftir skýrum skilaboðum
Í umræðunum kölluðu margir af þingmönnum Norðurlandaráðs eftir því að norrænu ríkisstjórnirnar sendu skýrari skilaboð varðandi það hvernig tillögum úr skýrslu Björns Bjarnasonar yrði fylgt eftir. Forseti ráðsins tók einnig undir það.
„Efnt var til umræðna um samfélagsöryggi á stóra þinginu síðasta haust og við vorum ekki allskostar ánægð með viðbrögð ráðherranna þar. Við fögnum þeim viðbrögðum sem við höfum fengið í dag, en bíðum enn eftir skilaboðum frá ráðherrum málaflokksins um hvernig þeir hyggist fylgja eftir þessum umræðum og skýrslu Björns Bjarnasonar,“ sagði Bertel Haarder að lokum.