Norrænt samstarf um aðlögun

Trapp
Photographer
Karin Beate Nøsterud/norden.org
Samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda á að styðja við starf sem unnið er í löndunum. Það er gert með því að efla norrænt samstarf á þessu sviði með miðlun reynslu og sköpun nýrrar þekkingar í brennidepli.

Árin 2015 og 2016 tóku Norðurlöndin á móti stærri hópi flóttamanna en áður. Í kjölfar þess sameinuðust Norðurlöndin um nýtt samstarf um aðlögun flóttafólks og innflytjenda þar sem áhersla er lögð á þróun nýrrar þekkingar og nýjar aðferðir til að bæta aðlögun.  Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að koma til móts við þörfina á miðlun þekkingar og reynslu milli ráðherra um hvernig stefnumótun, stefnuáætlanir og aðgerðir á þessu sviði hafa reynst og milli sveitarfélaga og félagasamtaka sem tengjast markhópnum um aðferðir, verkfæri og bestu starfsvenjur sem mögulegt er að yfirfæra úr einu samhengi í annað og taka í notkun með skjótum hætti.

Ný áætlun fyrir árin 2022-2024 byggir áfram á fyrirliggjandi sex ára norrænni reynslu og árangri á sviði aðlögunar flóttafólks og innflytjenda með aukinni áherslu á menntun og aðlögun á vinnumarkaði sem lyftistöng fyrir fólk sem er nýkomið til Norðurlanda.

Áætlunin stuðlar að framgangi eftirfarandi markmiða í Framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar 2030.

Markmið 7: Þróa færni og öflugan vinnumarkað sem mætir þörfum vegna grænna umskipta og stafrænnar þróunar og styður við frjálsa för innan Norðurlandanna.  

Markmið 12: Að standa vörð um traust og samloðunarkraft á Norðurlöndum, sameiginleg gildi og norrænt samfélag með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, þátttöku allra, bann við mismunun og tjáningarfrelsi.

Eftirfarandi atriði er að finna í áætluninni:

Miðlun þekkingar

Á www.integrationnorden.org er safnað og miðlað þekkingu um aðlögunarmál á Norðurlöndum. Það er gert í samstarfi Norrænu velferðarmiðstövarinnar og Nordregio, tveggja stofnana Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið er að þetta sé hugmyndabanki þar sem megináhersla er lögð á aðlögun flóttafólks og innflytjenda ásamt því að auka miðlun þekkingar milli ráðuneyta á Norðurlöndum og stjórnvalda, sveitarfélaga og almennra borgara. Auk þess er ár hvert valið eitt málefnasvið og búin til samantekt á norrænni þekkingu, dæmi sem læra má af og efnt til aðgerða til að miðla þekkingu. Sérfræðingahópar styðja þróun verkefnisins og mörg sérstök samstarfsnet leggja fram þekkingu sína á sviði ólíkra málefna.

Sjóður

Hagaðilar og fræðimenn geta sótt um styrki til að vinna verkefni þar sem áhersla er lögð á þróun nýrrar þekkingar, aðferðir og samstarfsleiðir sem styðja aðlögun flóttafólks og innflytjenda á Norðurlöndum. Vísað er til Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar sem auglýsir umsóknarfresti.

Talnagögn um aðlögunarmál á Norðurlöndum

Norræna ráðherranefndin hefur safnað talnagögnum um aðlögun á Norðurlöndum, meðal annars í tengslum við atvinnuþátttöku, hæli og upprunaland innflytjenda á Norðurlöndum.

Skipulag

Skrifstofa þekkingar- og velferðarmála á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar hefur umsjón með samstarfsáætluninni. Stoðhópur skipaður fulltrúum norrænna ráðuneyta sem fara með aðlögun tengist áætluninni. Stoðhópurinn tryggir að aðgerðir innan áætlunarinnar samræmist þeim markmiðum, pólitísku áherslum og málefnasviðum sem eru í brennidepli í ríkisstjórnum einstakra landa og vinnu stjórnvalda á þessu sviði. Þá hefur verið komið á fót norrænum sérfræðingavettvangi á sviði innflytjendamála sem stuðlar að traustum og margbreytilegum þekkingargrunni fyrir norrænt samstarf um aðlögunarmál.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um Framtíðarsýn okkar 2030

Í framkvæmdaáætluninni er lýst hvernig Norræna ráðherranefndin hyggst vinna að því að ná markmiðum framtíðarsýnarinnar með fjölmörgum verkefnum sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Hinar stefnumarkandi áherslur og markmið vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætluninni er skipt í tólf hluta og fjallar hver þeirra um eitt markmið.