Norðurlöndin geta komið í veg fyrir neikvætt félagslegt taumhald

24.06.20 | Fréttir
Mennesker
Photographer
Unsplash
Norrænu ríkin geta lært margt hvert af öðru um neikvætt félagslegt taumhald og heiðurstengt ofbeldi. Þetta kemur fram í nýrri norrænni skýrslu sem miðlar þekkingu og hugmyndum að því hvernig má vinna betur saman og sporna þannig gegn taumhald og ofbeldi.

Skýrslan sem kynnt var nýverið, Strategier og initiativer til forebyggelse af negativ social kontrol og æresrelateret vold i de nordiske lande (Stefnumótun og aðgerðir til að koma í veg fyrir neikvætt félagslegt taumhald og heiðurstengt ofbeldi í norrænu löndunum), veitir heildaryfirlit yfir stefnumótun, ráðstafanir og aðferðir á Norðurlöndum. Í skýrslunni eru kynnt þau svið þar sem þegar er unnið saman og önnur þar sem tækifæri eru til samstarfs sem gæti hvatning til þess að þróa nýjar aðgerðir. Allt er þetta þekking sem ætlað er að efla aðgerðir og samstarf með það að markmiði að grípa til aðgerða áður en vandinn verður til eða er orðinn mikill.
 

Tækifæri til frekara norræns samstarfs 

Eitt þeirra mikilvægu atriða sem bent er á er að munur er á því hvernig fagfólk landanna skilgreinir neikvætt félagslegt taumhald og heiðurstengt ofbeldi. Þá er útbreiðsla og viðurkenning á vandanum mismunandi milli landanna. Kortlagningin sýnir einnig að þrátt fyrir þann mun sem er milli landanna eru mikil tækifæri fyrir norrænu ríkin til að vinna frekar saman að fyrirbyggjandi aðgerðum á þessu sviði. 

Samstarf við fjölskyldur sem standa nærri vandanum 

Skýrslan var kynnt fyrir 180 þátttekendum á norrænu vefþingi. Á vefþinginu var meðal annars boðið upp á pallborð sérfræðinga þar sem sátu Louise Lund Liebmann frá Hróarskelduháskóla Ola Florin frá sænska forsætisráðuneytinu, Solfrid Lien frá norska þekkingarmálaráðuneytinu og Mia Luthtasaari frá finnska dómsmálaráðuneytinu. Í pallborðinu var rætt um hvernig norrænu ríkin virkja og vinna með fjölskyldum og löndum utan Norðurlanda að aðgerðum sínum og stefnumótun.

„Það var sérstaklega áhugavert að fá innsýn i það hvernig félagasamtök og stjórnvöld þvert á norrænu ríkin hafa komið á fót aðgerðum til þess að takast á við sameiginleg vandamál,“ segir Anna-Maria Mosekilde, starfsmaður verkefnisins hjá Norrænu ráðherranefndinni. Norræna ráðherranefndin stendur að baki skýrslunni sem unnin var af Rambøll.