Aðgerðir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum á netinu styrktar

01.06.18 | Fréttir
Dagfinn Høybråten og Morgan Johansson MR-Lov i Lund 2018
Ljósmyndari
norden.org/André Jamholt
Orðinn er til nýr farvegur fyrir kynferðislega misnotkun á börnum. Með internetinu hafa opnast möguleikar til misnotkunar sem ná út yfir landamæri. Nú er unnið að því að styrkja aðgerðir norrænu ríkjanna gegn slíkri misnotkun þvert á landamæri.

Samhliða árlegum fundi norrænu dómsmálaráðherranna í Lundi var haldin tveggja daga sérfræðingafundur um hvernig hindra megi kynferðislega glæpi gegn börnum á netinu. Ráðstefnan var fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.

„Árásir af þessum toga geta markað djúp spor í líf þeirra sem fyrir þeim verða. Árásarmennina verður að sækja til saka og þeir verða að sæta refsingu fyrir brot sín. Með auknu samstarfi milli norrænu ríkjanna mun okkur takast að ná til fleiri af þeim sem fremja þessa gerð glæpa,“ segir Morgan Johansson, dóms- og innanríkismálaráðherra Svíþjóðar.

Fulltrúar þeirra ráðuneyta og lögregluyfirvalda sem bera ábyrgð á þessum málaflokki í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð tóku þátt í sérfræðingafundinum sem haldinn var í Lundi 30. og 31. maí. Þátttakendur í sérfræðingafundinum gerðu dómsmálaráðherrunum strax grein fyrir umræðunum og niðurstöðum fundarins.

Markmið ráðstefnunnar var að skilgreina og lýsa aðgerðum eins og: 

  • Að auka samhæfingu norrænu ríkjanna á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis innan vébanda ESB. 
  • Að auka samstarf milli lögregluyfirvalda norrænu ríkjanna á sviði menntamála og ráðstefnuhalds.
  • Að styrkja þróun og samstarf um tæknilegar leiðir við rannsókn á árásum gegn börnum á netinu.
  • Að þróa og styrkja samstarf um að sækja upplýsingar á netinu.

Norrænu dómsmálaráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þess að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum á netinu. Dómsmálaráðherrarnir fagna þeirri styrkingu og þróun norræns samstarf á þessu sviði sem nú er til umræðu og líta björtum augum til þess að taka við skýrslu um framfarirnar sem orðið hafa á næsta fundi sínum árið 2019.

„Norræna ráðherranefndin telur mikilvægt að leggja sitt af mörkum til þess að ráðstefna sem þessi geti orðið að veruleika. Kynferðisglæpir gegn börnum eru skaðlegir og afar alvarlegir. Þó að tækniþróun sé vissulega jákvæð þá opnar hún ný tækifæri fyrir kynferðisglæpamenn. Netið hefur gert árásirnar landamæralausar. Þess vegna verða aðgerðir okkar einnig að vera landamæralausar. Við verðum því að vinna saman til þess að geta veitt börnum okkar raunverulega vernd,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.