Lokaútkall: Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2020

05.05.20 | Fréttir
Nordiska rådets miljöpris 2020

Nordiska rådets miljöpris 2020

Ljósmyndari
Kaj Svahn / WWF
Ábendingar um framúrskarandi verkefni óskast! Veist þú um einhvern sem ætti að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs? Þá eru nú síðustu forvöð – frestur til að skila tilnefningum rennur út miðvikudaginn 13. maí.

Í ár renna umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs til aðila á Norðurlöndum sem hefur lagt eitthvað sérstakt af mörkum til verndar fjölbreytileika í náttúru okkar. Þemað í ár er nefnilega líffræðileg fjölbreytni með áherslu á fjölbreytt lífríki sem undirstöðu velferðar og forsendu sjálfrar tilvistar okkar. Hver sem er getur sent inn tilnefningar og verðlaunaupphæðin nemur 350.000 dönskum krónum.

Veist þú um eitthvert alveg einstakt framtak sem stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni? Tilnefningar til umhverfisverðlaunanna skulu berast í seinasta lagi 13. maí.

Engin fjölbreytni, ekkert líf

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni er ein af stærstu áskorunum sem jarðarbúar standa frammi fyrir. Samkvæmt Náttúruvísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPBES) hefur hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í náttúrulegum vistkerfum aldrei verið meiri en nú.

Tegundir deyja út og vistkerfi skaðast og eyðast á slíkum hraða að það ógnar lífsskilyrðum bæði núlifandi og komandi kynslóða. Þessi þróun er því ekki einungis ógn við náttúruna heldur einnig við velferð okkar sjálfra.

Svæði sem eru rík af tegundum og búsvæðum eru betur í stakk búin til að laga sig að breyttu loftslagi og margir ólíkir frjóberar eru undirstaða stórs hluta af matvælaframleiðslu okkar. Hver vinnur sérstaklega að því að stöðva þessa þróun?

Hver skapar áhrifaríkar og skapandi lausnir við þessari sameiginlegu áskorun? Sendu inn tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Frestur er til 13. maí.

Þema umhverfisverðlaunanna í ár endurspeglar og styður við 14. og 15. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um líf í hafi og á landi

Fyrri verðlaunahafar:

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2020 er líffræðilegur fjölbreytileiki. Hver sem er getur tilnefnt. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Framlag hins tilnefnda verður að hafa norrænt sjónarhorn.

Tilkynnt verður um sigurvegarann þann 27. október 2020 á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi.