Norræn stefnumál fengu brautargengi á COP15: Nýr samningur SÞ styður við náttúrumiðaðar lausnir

21.12.22 | Fréttir
applåder vid färdiga förhandlingar
Photographer
Lars Hagberg/AFP/Ritzau Scanpix
Ríkisstjórnum heimsins tókst að ná sögulegu samkomulagi um vernd náttúrunnar eftir langar viðræður á COP15 í Montreal. Í nýja samningnum er tekið til náttúrumiðaðra lausna, nokkuð sem vekur ánægju hjá norrænu ríkisstjórnunum. En ungt fólk er gagnrýnið á hugtakið og óttast að það leiði til grænþvottar.

Snemma á mánudaginn náðist nýr samningur SÞ, alþjóðleg björgunaráætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni á jörðinni.

Umhverfisráðherrar Svíþjóðar, Finnlands, Noregs og Grænlands voru viðstaddir ásamt vísindamönnum og umhverfishreyfingum alls staðar að úr heiminum og stórum hópi ungs fólks frá Norðurlöndum. Síðustu dagana tóku umhverfis- og loftslagsráðherrar þátt í viðræðunum.

„Náttúrumiðaðar lausnir eru kjarninn“

Eitt af mörgum málum sem fjallað var um í viðræðunum var náttúrumiðaðar lausnir.

Þær snúast um það hvernig hægt sé að nýta náttúruna og ýmis vistkerfisleg ferli hennar til að draga úr loftslagsáhrifum og mengun, til dæmis með því að endurheimta mýrar og votlendi sem geta safnað afrennslisvatni og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Við viðræðurnar sagði Maria Ohisalo, umhverfisráðherra Finnlands, að „náttúrumiðaðar lausnir væru kjarninn í því að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og takmarka loftslagsáhrifin“.

 

Sterk tenging við loftslagið

„Náttúran leikur stórt hlutverk í lausn loftslagsvandans. Skógarnir, mýrarnar, jarðvegurinn og höfin eru kolefnisviðtakar. Fjölbreytt náttúra dregur úr áhrifum loftslagsbreytinga á borð við flóð, landrof eða öfgakennt veður,“ sagði Maria Ohisalo.

Fyrr í haust gáfu norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir í fyrsta sinn út yfirlýsingu um náttúrumiðaðar lausnir þar sem þeir skuldbinda sig til að vinna meira með slíkar lausnir.

Og í nýja samningnum sem hefur nú verið samþykktur eru náttúrumiðaðar lausnir nefndar sem leið til að endurheimta, varðveita og styðja við framlag náttúrunnar til mannkyns, og sem leiðar til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Gagnrýni frá ungliðhreyfingum

Í Montreal bauð norrænt samstarf til málþings þar sem nefnd voru dæmi um það hvernig náttúrumiðaðar lausnir eru notaðar á Norðurlöndum ásamt því að rætt var um kosti og galla þess að fella náttúrumiðaðar lausnir inn í alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni.

Þær ungliðahreyfingar sem tóku þátt í COP15 bentu á að náttúrumiðaðar lausnir gætu verið áhrifaríkar, en aðeins ef „náttúra“ væri vandlega skilgreind og tæki ekki til einhæfra vistkerfa á borð við nýgróðursetta skóga.

„Losum okkur undan jarðefnaeldsneyti“

„Það sem skiptir mestu máli að gera er að losna undan því að vera háð jarðefnaeldsneyti og hætta ofneyslu. Ég óttast að náttúrumiðaðar lausnir verði einhvers konar grænþvottur. Eitthvað sem við gerum til að geta haldið áfram að neyta og nota jarðefnaeldsneyti með óbreyttum hætti,“ sagði Jonas Kittelsen frá Noregi, meðlimur í Nordic Youth Biodiversity Network.

Verði tengsl gerð á milli náttúrumiðaðra lausna og pólitískra markmiða um núll nettó losun á koldkíoxíði verður líffræðileg fjölbreytni að peði í stærðfræðilegum leik, að mati hans.

Frumbyggjar leika lykilhlutverk

Ungliðahreyfingarnar hafa jafnframt kallað eftir skýrara orðalagi um réttindi frumbyggja í tengslum við náttúrumiðaðar lausnir.

„Hingað til hefur það ekki verið hluti af þeim náttúrumiðuðu lausnum sem við höfum séð að taka mið af þekkingu frumbyggja og innfæddra á náttúrunni. Sé rétt staðið að málum frá upphafi og réttindi frumbyggja virt verða náttúrumiðaðar lausnir sennilega óþarfar,“ segir Jackem Edwine frá Kenía, meðlimur í Global Youth Biodiversity Network.

Lausnirnar verða að styðja við bæði náttúrna og loftslagið

Jóna Ólavsdóttir, sem fer fyrir verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, Náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum, vonast eftir því að sjá fleiri verkefni í norrænu löndunum, verkefni sem þurfa að uppfylla þau skilyrði sem SÞ hafa samþykkt.

„Fyrir okkur skiptir máli að halda okkur við skilgreiningu SÞ á náttúrumiðuðum lausnum til að tryggja að við styðjum ekki við grænþvott. Við eigum heldur ekki að styrkja verkefni sem styðja við líffræðilega fjölbreytni en vinna gegn loftslagsaðlögun, eða öfugt,“ segir hún.

Aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar

Vísindamenn telja að með náttúrumiðuðum lausnum megi ná fram þriðjungi þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem þörf er á til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Jafnframt stuðla þær að því að draga úr hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um verkefni og skýrslur norræns samstarfs í tengslum við náttúrumiðaðar lausnir: