Nú hefst fundur SÞ um líffræðilega fjölbreytni: Stór norræn sendinefnd ungs fólks í Montreal

05.12.22 | Fréttir
Toppmötet COP15 bygs i Montreal
Photographer
Paul Chiasson/Zuma/Ritzau Scanpix
Dagana 7.–18. desember koma lönd heimsins saman í Montreal í Kanada til að koma sér saman um nýjan alþjóðlegan samning um náttúruna. Ráðherrar, þingmenn og 18 fulltrúar ungs fólks frá Norðurlöndum eru á COP15 og vonast til að geta þrýst á um metnaðarfullan samning í viðræðunum.

Leiðtogafundur SÞ, COP15, á að færa heiminum mikilvægan samning til að stöðva hina hröðu hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

„Fundurinn um líffræðilega fjölbreytni í Montreal verður að marka þáttaskil þegar kemur að því að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni fram til ársins 2030, svipað og loftslagsfundurinn í París markaði þáttaskil í vinnunni gegn loftslagsvandanum,“ segir Maria Ohisalo, umhverfis- og loftslagsráðherra Finnlands, sem heldur til viðræðnanna ásamt öðrum ráðherrum frá Norðurlöndum.

Endurheimta verður eyðilögð náttúrusvæði

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni er ein helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu og er nátengd loftslagsvandanum. Að mati umhverfis- og loftslagsvísindamanna mun okkur ekki takast að ná loftslagsmarkmiðum okkar án markvissra aðgerða til að vernda og endurheimta eyðilögð náttúrusvæði.

Á fundinum í Montreal er m.a. búist við ákvörðunum um alþjóðleg markmið um vernd lands-, vatna- og hafsvæða.

ESB styður markmiðið um að vernda 30 prósent og endurheimta 3 milljarða hektara lands.

Samningaviðræðurnar munu einnig snúast um kröfu um sjálfbærari landbúnað, skógrækt og sjávarútveg ásamt baráttu gegn ágengum tegundum.

Ungt fólk hefur áhyggjur af fjármögnuninni

Eitt af því sem búist er við að verði erfitt að ná niðurstöðu um í Montreal er hvernig fjármagna eigi skjóta framkvæmd samningsins. Jonas Kittelsen, ungmennafulltrúi frá Noregi, telur ábyrgð ríkra þjóða á fjármögnuninni þýðingarmikla.

„Ég óttast að ríku löndin muni afsala sér sögulegri ábyrgð sinni þegar kemur að því að fjármagna þau kerfi sem öflugur alþjóðlegur samningur um náttúruna kallar á,“ segir Jonas Kittelsen.

 

„Um leið vekur það vonir að svo margt ungt fólk og fulltrúar frumbyggja taki virkan þátt í viðræðunum og muni berjast fyrir réttlátum samningi þar sem mannréttindi og heilleiki vistkerfisins er settur ofar hagsmunum þeirra sem hagnast á eyðileggingu náttúrunnar,“ segir hann.

Ungt fólk situr við samningaborðið

18 norrænir ungmennafulltrúar halda til fundarins í Montreal með lista yfir kröfur sínar fyrir lokaviðræðurnar.

Kröfurnar voru mótaðar í þriggja ára ferli þar sem norrænir ungmennafulltrúar hafa rætt saman, haft samráð við sérfræðinga og stjórnmálamenn og virkjað um 3000 ungmenni til að afla stuðnings við Nordic Youth Position Paper on Biodiversity. Verkefnið var fjármagnað í gegnum norrænt samstarf.

Unga fólkinu gefst færi á að koma kröfum sínum á framfæri í Montreal ásamt því að hafa samráð við norræna ráðherra og samningamenn á staðnum.

Norræn lína

Norrænu ríkisstjórnirnar koma að samningaviðræðunum í gegnum ESB en hafa komið sér saman um norræna afstöðu þar sem áhersla er meðal annars lögð á að náttúrumiðaðar lausnir geti leikið mikilvægt hlutverk í að leysa alþjóðlegar áskoranir og þar sem skorað er á fundinn að setja mælanleg markmið og skýrar kröfur um framkvæmd.

Tillaga um sjóð æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni

Norræna þingmannasamstarfið, Norðurlandaráð, sendir nokkra áheyrnarfulltrúa til viðræðnanna.

Norræna sjálfbærninefndin hefur meðal annars átt frumkvæðið að norrænum sjóði æskunnar fyrir líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál og hvatt norrænu ríkisstjórnirnar til samstarfs í baráttunni gegn ágengum tegundum.

„Norðurlönd eiga að vera leiðandi afl í heiminum, bæði í loftslagsmálum og þegar kemur að líffræðilegri fjölbreytni. Við stöndum okkur vel í loftslagslausnum en ekki nógu vel varðandi líffræðilega fjölbreytni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli fyrir Norðurlandaráð að vera viðstatt við gerð nýs alþjóðlegs samnings. Við munum þurfa að vinna saman á norrænum vettvangi að innleiðingu samningsins ef okkur á að takast,“ segir Lene Westgaard-Halle, þingmaður frá Noregi sem á sæti í norrænu sjálfbærninefndinni.

Nánar um nýjustu tillögu Norðurlandaráðs varðandi líffræðilega fjölbreytni: