Dýrið - Ísland

IS Lamb
Ljósmyndari
Go to Sheep
Íslenska kvikmyndin „Dýrið“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund en verður þeim síðar að tortímingu.   

Rökstuðningur

Í kvikmyndinni Dýrið sameinast íslensk sveitarómantík og frásagnahefð þjóðsagnanna. Innan þessa ramma bætir leikstjórinn Valdimar Jóhannsson við lögum af trúarlegum táknum og notar áhrif stofuleiks (kammerspiel) til að skapa einstaka frásögn af kraftaverkum, missi og hryllingi. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast heimur þar sem mannlegur skilningur og langanir eru gerð grunsamleg og hið venjubundna líf virðist framandi.

Viðkvæmni dýrsins við minnstu truflunum í umhverfi sínu er notuð á áhrifaríkan hátt til að skapa tilfinningu um undirliggjandi ógn sem er enn fremur mögnuð upp með nærgætinni myndatöku og ógnvekjandi hljóðheimi.

Kvikmyndin er í senn truflandi og frumlegt kvikmyndaverk sem tekur á sambandi mannsins og náttúru og afleiðingum þess.

Handritshöfundur – Sjón

Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) er ljóðskáld og handritshöfundur fæddur árið 1962. Auk þess að skrifa handritið að Dýrinu sem var valin til sýningar í flokknum Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2021 átti hann þátt í að skrifa handritið að kvikmyndinni The Northman ásamt leikstjóra myndarinnar, Robert Eggers.

Um þessar mundir vinnur hann að kvikmyndauppfærslu á Hamlet ásamt Ali Abbasi (Holy Spider, Border).
Árið 2001 hlaut Sjón tilnefningu til Óskarsverðlauna ásamt Lars von Trier og Björk fyrir söngtexta í myndinni Dancer in the Dark. Sjón hefur verið kvikmyndaáhugamaður frá unga aldri og hefur setið í dómnefndinni fyrir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Hann hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir skáldsögur sínar og ljóðasöfn, m.a. bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2002 fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur.

Handritshöfundur og leikstjóri – Valdimar Jóhannsson

Valdimar Jóhannsson fæddist árið 1978 á Íslandi. Hann hefur verið virkur við kvikmyndagerð í um tvo áratugi. Hann sótti doktorsnám við Béla Tarr's Filmfactory í Sarajevo, þar sem hann starfaði með kvikmyndagerðafólki á borð við Tilda Swinton, Gus Van Sant, Carlos Reygadas meðal annarra.
Eftir að hafa sent frá sér nokkrar stuttmyndir gerði hann kvikmyndina Dýrið sem valin var til sýningar í flokknum Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2021, þar sem hún hlaut verðlaun sem frumlegasta myndin. Myndin var valin sem framlag Íslands til Óskarsverlauna árið 2022.

Framleiðandi – Hrönn Kristinsdóttir

Hrönn Kristinsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún er eigandi og framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Go to Sheep. Hrönn lagði stund á bókmenntafræði og leikhúsfræði við Freie Universität í Berlín og kvikmyndafræði við Columbia College í Hollywood. Hún hefur komið að framleiðslustjórn fjölda kvikmynda, m.a. Blóðbönd og sjónvarsþáttunum Hamarinn. Sem framleiðlandi hefur hún komið að myndum á borð við Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur og hinni margverðlaunuðu Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson.

Hrönn er einn af stofnendum WIFT á Íslandi, samtökum kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum og hún sat í dómnenfd kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs á árunum 2005-2007.

Framleiðandi – Sara Nassim

Sara Nassim fæddist á Íslandi. Móðir hennar er íslensk og faðir hennar persneskur.
Hún stundaði nám í kvikmyndaframleiðslu við American Film Institute í Los-Angeles, og hefur sinnt ýmsum stöfum innan kvikmyndageirans, allt frá aðstoð við framleiðslu í Game of Thrones og Noah eftir Darren Aronofsky, til framleiðslustjórnunar við Hjartastein og Héraðið. Hún var aðalframleiðandi myndarinnar Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar. Sara var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2018 fyrir tónlistarmyndbandið Mumbo Jumbo með Tierra Whack þar sem hún var framleiðandi.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Dýrið

Leikstjóri: Valdimar Jóhannsson

Handritshöfundur: Valdimar Jóhannsson, Sjón

Aðalhlutverk: Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson, Ingvar E. Sigurðsson

Framleiðendur: Hrönn Kristinsdóttir, Sara Nassim

Framleiðslufyrirtæki: Go to Sheep

Lengd: 106 mínútur

Dreifing í heimalandi: Sena

Alþjóðleg dreifing: New Europe Film Sales