Frida Nilsson

Ishavspirater
Frida Nilsson: Ishavspirater. Skáldsaga, Natur och Kultur, 2015

Sögusvið Ishavspirater (Sjóræningjarnir á Íshafinu) eftir Fridu Nilsson er eyjaklasi í vetrarbúningi, hersetinn af sjóræningjanum Hvíthöfða, sem hrellir íbúana og rænir börnum til að láta þau vinna í námunni sinni. Dag einn koma Hvíthöfði og fylgdarlið hans á heimaslóðir Siriar og litlu systur hennar, Mikiar, og Miki lendir í klóm sjóræningjanna. Siri á ekki annars úrkosti en að ferðast þvert yfir eyjaklasann til að finna námu Hvíthöfða og bjarga systur sinni.

Fjölmargar persónur verða á vegi hennar, sumar vinveittar en aðrar óvinveittar, og ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Margir þrá ríkidæmi ofar öllu og skaða eða drepa dýr og arðræna náttúruna í gróðaskyni.

Hversu langt er fólk reiðubúið að ganga fyrir eigin hagsmuni? Þetta er ein af þeim grundvallarspurningum sem lagðar eru fram í Ishavspirater. Frida Nilsson nýtir sjónarmið vistfræðinnar til að rýna í græðgi mannfólksins, en veltir því einnig upp hvað það sé eiginlega sem geti af sér illsku – og hvað geti af sér hugrekki. Þegar upplausnin nálgast verður ljóst að ekkert er alveg svart eða hvítt, ekki einu sinni verstu voðaverk. Jafnvel hið illa getur átt rætur í einhverju góðu.

Ishavspirater er safaríkt ævintýri með alvarlegum undirtóni. Nilsson var tilnefnd til hinna virtu August-verðlauna fyrir bókina og hlaut verðlaunin Expressens Heffaklump fyrir hana.

Frida Nilsson er barnabókahöfundur og þýðandi. Hún hefur einnig skrifað handrit fyrir útvarp og sjónvarp, lesið inn á teiknimyndir, haldið leiklistarnámskeið fyrir börn og stýrt barnaþættinum Hjärnkontoret í sænska ríkissjónvarpinu. Fyrsta bók hennar, Kråkans otroliga liftarsemester, kom út 2004. Hún hefur skrifað fjölda bóka sem hafa hlotið góðar viðtökur. Árið 2015 var bókin Jagger, Jagger tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Sú bók er þriðja bókin í þríleik sem fjallar um það að vera á einhvern hátt utanveltu. Hinar tvær bækurnar eru Apstjärnan og Jag, Dante och miljonerna.

Bækur Fridu Nilsson hafa verið þýddar á tugi tungumála, en einkum hefur Apstjärnan vakið alþjóðlega athygli. Hún hlaut frönsku bókmenntaverðlaunin Les Olympiades árið 2013, var tilnefnd til hinna þýsku verðlauna Deutscher Jugendliteraturpreis 2012 og frönsku verðlaunanna Prix Tam-Tam „J’aime Lire“ árið 2013. Þá hlaut Nilsson BMF-skjöldinn árið 2004 og hefur þrisvar verið tilnefnd til August-verðlaunanna, fyrir Ishavspirater, fyrir Jagger, Jagger árið 2014 og Hedvig och Max-Olov árið 2006. Árið 2014 hlaut Frida Nilsson Astrid Lindgren-verðlaunin, sem veitt eru af bókaforlaginu Rabén & Sjögren.