Hanna Gustavsson

Iggy 4-ever
Hanna Gustavsson: Iggy 4-ever. Teiknimyndasaga, Galago, 2015

Í Iggy 4-ever (Iggy að eilífu) eftir Hönnu Gustavsson segir frá lífi unglingsstúlku í úthverfi Stokkhólms. Iggy býr með móður sinni, sem er einstæð. Í skólanum gera hrekkjusvín henni lífið leitt og á heimilinu eru viðvarandi blankheit.

Iggy og Julle vinkona hennar slæpast í verslanamiðstöðvum og bakgörðum í hverfinu. Þær hafa ekki efni á að versla, en finnst gaman að skoða og máta. Öllu verra er þegar farsíminn bilar, eða þegar vinirnir fá sér pitsu og Iggy þarf að láta sér nægja að horfa á þá borða. Hún eyðir ekki í óþarfa, því hún veit hvað mamma hennar leggur hart að sér til að ná endum saman. Hinni gagnkvæmu tryggð sem einkennir samband mæðgnanna er lýst af mikilli næmni.

Hönnu Gustavsson tekst snilldarvel upp við að lýsa lífi ungmenna í Stokkhólmi samtímans, stéttaskiptingunni og skuggahliðum neysluhyggjunnar. En hún gerir meira en það. Með nákvæmum og hnitmiðuðum svipmyndum setur hún bæði spurningarmerki við og leikur sér með þær rótgrónu hugmyndir sem lesandinn og hin strákalega Iggy hafa um kyn og kyngervi. Samræðurnar í bókinni eru listavel skrifaðar, myndmálið kraftmikið og útkoman er teiknimyndasaga sem mun lifa lengi með lesandanum.

Hanna Gustavsson er myndskreytir og höfundur teiknimyndasagna. Hún er menntuð í grafískri hönnun og myndskreytingum og lauk meistaranáminu Storytelling við Konstfack í Stokkhólmi. Einnig lagði hún stund á nám í myndskreytingum við California College of the Arts. Fyrsta bók hennar var teiknimyndasagan Nattbarn, sem hlaut Urhunden-verðlaunin árið 2014 fyrir bestu sænsku teiknimyndabók ársins áður. Iggy 4-ever, sem hlaut tilnefningu til hinna virtu August-verðlauna 2015, er sjálfstætt framhald Nattbarn.

Hanna Gustavsson hefur starfað sem myndskreytir hjá fjölda virtra tímarita í Svíþjóð, svo sem Bang, Galago og Brand. Einnig starfar hún fyrir ýmis bókaforlög og er meðlimur í listahópnum „En klump av överflöd“, sem hefur m.a. haldið sýningar í ljósmyndaháskólanum í Gautaborg, Konstfack í Stokkhólmi og Galleri Lars Palm í Sandviken.