Hildur Knútsdóttir

Ljósmyndari
Gassi
Hildur Knútsdóttir: Hrím. Unglingabók, Forlagið, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Hrím er ævintýraleg þroskasaga ungrar stúlku sem heyr erfiða lífsbaráttu í köldu og harðneskjulegu landslagi sem mannfólkið deilir með risadýrum. Hildur Knútsdóttir hefur skapað heilsteyptan en framandi heim þar sem þekkt íslensk kennileiti eru leiktjöld og landslag sögunnar. Hildur teflir kunnuglegum örnefnum svæðisins á móti framandleikanum í ógnvekjandi risavöxnum dýrum sem ráða ríkjum í þessum heimi. Sum þessara dýra hefur enginn séð, heldur vekja ókennileg hljóð og aðrar vísbendingar hugmyndir um yfirvofandi hættu. Allt þetta skapar dulúð sem endurspeglar íslensk þjóðsagnaminni á mjög skapandi og hugmyndaríkan hátt. 

 

„Sólarlagið roðaði skýjabólstra yfir Kinnarfjöllunum og í hylnum fyrir neðan þau spegluðust himinninn og heiðin. Jófríður lokaði augunum. Hún hlustaði á kvakið í fuglunum, sem voru í óðaönn að búa sig undir nóttina, og á strengi árinnar. Svona hljómaði engin önnur á. Laxá hafði hrifsað til sín systur hennar en samt þótti Jófríði hún falleg. Þar sem var mikið líf var líka mikill dauði. Eitt fylgdi óhjákvæmilega öðru.“ 

 

Unglingsstúlkan Jófríður ferðast um veiðilendur með skaranum sínum sem hagar lífi sínu í takt við náttúruna og árstíðirnar og lifir af því sem hópurinn getur safnað eða veitt. Veiðiferðirnar sýna skýrt hvað manneskjurnar eru máttlitlar í heimi risavaxinna dýranna – til dæmis þegar stór hópur fólks þarf að sameina krafta sína til að draga einn selkóp á land. Með því að stilla mannkyninu upp svo smáu og án yfirburða tæknilegs valds vekur höfundurinn upp spurningar um náttúruvernd og gildi þess að lifa í takt við náttúruna.  

 

Frásögnin er þó fyrst og fremst saga unglingsstúlku. Lesandinn getur auðveldlega speglað sig í áhugamálum Jófríðar, eins og perlusaumuðum fatnaði úr kópaskinni eða snúnum ástamálum þar sem hún þarf að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa. Líf Jófríðar umturnast hins vegar þegar henni er gert að taka á sig þunga ábyrgð á velferð og framtíð alls skarans. Hún leggur ein af stað í leiðangur þar sem hún hefur aðeins á sjálfa sig að treysta og verður að finna sína eigin leið til að tryggja velferð fólksins síns. Sagan er hröð og spennandi og baráttan við náttúruna drífur söguna áfram, en það eru ekki síður innri átök Jófríðar sem eru í brennidepli. Persónusköpunin er sterk, sérstaklega í lýsingunni á Jófríði og baráttu hennar við sjálfa sig, en aukapersónurnar eru einnig marglaga og áhugaverðar.  

 

Hrím er mikilvæg saga sem sýnir á kröftugan og spennandi hátt viðkvæmt samband manneskjunnar við náttúruna og talar þannig fyrir sjónarmiðum umhverfisverndar. Hrím er ákall til ungra lesenda og okkar allra að taka málstað náttúrunnar.  

 

Hildur Knútsdóttir er fjölhæfur og afkastamikill höfundur sem skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi fantasíunnar. Hildur hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016 fyrir ungmennabókina Vetrarhörkur. Hrím hlaut verðlaun bóksala 2023 og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.