Knut Vaage

Knut Vaage

Knut Vaage - foto: Thor Brødreskift

Photographer
Thor Brødreskift
Knut Vaage er tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir verkið „Hybrid Spetakkel“ (fyrir einleikara á selló, sönghóp, raftónlist og myndefni) (2020).

Rökstuðningur

Knut Vaage (f. 1961) hefur í mörgum verka sinna látið reyna á mörk spuna og tónsmíðar, svo og hljóðið sem til verður í samruna hljóðfæraleiks og raftónlistar. Hann hefur samið tónlist sem spannar allt frá sinfóníum og óperum til sólóstykkja.

 

Í Hybrid Spetakkel heyrum við lágvær hljóðfærahljóð, sem vanalega heyrast ekki, mögnuð upp gegnum kraftmikla raftónlistarforritun. Með hjálp lítilla hljóðnema fara hinir og þessir hlutir að senda frá sér hljóð og skapa sérstætt og framtíðarlegt tónlistarlandslag. Ofan á þennan hljóðheim raftónlistar og hefðbundinna hljóðfæra leggja Vaage og samstarfsfólk hans svo ljós, leysigeisla og myndskeið, sem byggir upp marglaga sjónræna tónlistarupplifun.

 

Dystópísk depurð er kynnt til sögunnar og henni viðhaldið allt í gegnum hið klukkutíma langa tónverk. Varpað er ljósi á sambandið milli manneskju og tækni og tjáningarmátinn hvetur hlustandann til að velta þessu sambandi fyrir sér.

 

Útgangspunkturinn í hinum sjónræna þætti verksins eru margar litlar myndavélar sem stýrt er af tölvuforriti til þess að „fylgjast með“ tónlistarmönnunum og sýna í návígi hina margvíslegu tækni sem hver og einn beitir. Myndirnar eru birtar í takt við fjölröddun laglínunnar og er varpað upp á stór tjöld hér og þar í salnum. Í ljósa- og hljóðasyrpunni undir lok verksins birtist samtengt hljóð og ljós frá þremur leysigeislum. Um leið er samhengið milli hinna ólíku miðla kannað; raftónlistar, hljóðfæraleiks, ljóss, leysigeisla og myndefnis. 

 

Hybrid Spetakkel er ljóðrænt verk sem vekur áheyrendur til umhugsunar og opnar á ný skynhrif.

 

 

Tengill