Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Úlfur og Edda: Dýrgripurinn
Kristín Ragna Gunnarsdóttir: Úlfur og Edda: Dýrgripurinn. Skáldsaga, Bókabeitan, 2016

Edda þarf að dvelja með hinum ofvirka stjúpbróður sínum, Úlfi, í Skálholti sumarlangt þar sem Edda amma hennar er við fornleifarannsóknir og faðirinn Binni hefur tekið að sér matseld. Þegar mikilvægur forngripur ömmunnar hverfur er rannsókn hennar í uppnámi. Þá taka Edda og Úlfur til við leitina sem leiðir þau inn í annan heim og eru þá stödd í sjálfum Ásgarði. Þar þurfa þau að sýna hvað í þeim býr þegar forn goð og meinvættir stíga fram á sögusviðið. Við tekur hættuleg og æsispennandi leit að dýrgripnum og stjúpsystkinin komast fljótt að því að þessum fornu átrúnaðargoðum er varlegt að treysta. En Úlfur og Edda eru klárir krakkar sem bæta hvort annað upp og þau læra að meta hvort annað þegar á reynir.

Í sögunni blandar Kristín Ragna saman gömlu og nýju á skemmtilegan hátt. Kunnuglegar persónur úr norrænni goðafræði birtast en ýmislegt óvænt kemur í ljós um þær við nánari kynni. Þannig er sagan ekki aðeins endursögn á því sem áður er vitað heldur einnig hugvitsamleg viðbót og nýsköpun. Í sögunni eru gömlu goðsagnirnar tengdar lipurlega við nýrri barnabækur og barnamenningu, sem áréttar að bókmenntir mismunandi tíma mynda eitthvert samhengi þegar nánar er að gáð.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir er grafískur hönnuður, myndskreytir og rithöfundur sem hlotið hefur verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar og myndlist. Hún hefur tvisvar fengið Dimmalimm-verðlaunin fyrir myndskreytingar við bækur um Norræna goðafræði. Kristín Ragna hefur BA-próf í bókmenntafræði og MA-próf í ritlist.