Maria Parr og Åshild Irgens
Rökstuðningur
Í Oskar og eg („Oskar og ég“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) kynnumst við hinni átta ára gömlu Idu og fimm ára bróður hennar, Oskari. Þau búa ásamt foreldrum sínum í litlum bæ þar sem hinn ytri heimur afmarkast af náttúru og sveitalífi. Í hinum ellefu köflum bókarinnar fylgjumst við með daglegu lífi systkinanna í eitt ár. Hver kafli er frásögn með eigin innri byggingu. Ida segir söguna frá barnslega athugulu, blátt áfram og forvitnu sjónarhorni. Í textanum býr glaðlegur og fágaður léttleiki sem gerir frásagnirnar hentugar til upplestrar.
Ida og Oskar alast upp á öruggu og „venjulegu“ heimili, kynnast ýmsum hliðum lífsins og áskorunum þess og bregðast við upplifunum sínum á heilbrigðan og tilfinningaríkan hátt. Höfundurinn sýnir það með trúverðugum og meitluðum hætti að bæði fullorðnir og börn mega verða leið, reið, hrædd, öfundsjúk og skapvond án þess að gera þurfi slíkar tilfinningar að vandamáli, dæma þær eða telja þær einhvers konar sjúkdómseinkenni.
Sambandið á milli sjálfstæðis og þess að vera öðrum háð er gegnumgangandi þema í bókinni. Það að reyna, mistakast, ná tökum á hlutum og bjástra við þá er mikilvæg reynsla sem við öðlumst á bernskuárunum. Börn þurfa þó líka öruggt skjól sem þau geta leitað í eftir huggun og umhyggju. Í söguheimi Parr eru tilfinningar, hugleiðingar og athuganir úr daglegu lífi barns í forgrunni. Lífið og dagarnir eru til þess að upplifa og uppgötva. Ida og Oskar eru virk, skapandi og forvitin, gerendur í eigin lífi, og góðar fyrirmyndir nútímabarna sem geta oft orðið að passífum viðtakendum fyrir sköpunarverk annarra.
Myndirnar eftir Åshild Irgen skapa andrúmsloft sem fellur vel að textanum og gefur daglegu lífi Idu og Oskars heillandi, kíminn og persónulegan blæ.
Maria Parr (1981) gaf út fyrstu bók sína, barnabókina Vaffelhjarte, árið 2005 og hefur sent frá sér þrjár barnabækur síðan. Önnur bókin, Tonje Glimmerdal, færði henni velgengni utan Noregs og Parr hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar, bæði í Noregi og víðar. Bækur hennar hafa verið þýddar á yfir 30 tungumál og bæði sjónvarpsþáttaraðir og leikverk hafa verið skrifuð upp úr þeim. Oskar og eg hlaut Brage-verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2023.