Nora Dåsnes

Nora Dåsnes, Nominated for the 2022 Nordic Council Children and Young People’s Literature Prize
Photographer
Agnete Brun
Nora Dåsnes: Ubesvart anrop. Myndasaga, Aschehoug, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Mánuður er liðinn frá hryðjuverkunum sem framin voru í Noregi 22. júlí, og Rebekka og Fariba eru að byrja í menntaskóla. Fariba er búin að skrá sig í ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins og Rebekka reynir að átta sig á því sem gerðist í stjórnarhverfinu í Ósló og í Útey. Mamma hennar er lögreglukona og eldri bróðir hennar, Joakim, er á kafi í tölvuleikjum og í mikilli andstöðu við móður þeirra sem reynir að setja honum mörk.

Rebekka hittir Daniel, sem er í leikfélaginu í skólanum, og þau verða ástfangin. Um leið á Rebekka sífellt erfiðara með að ráða við vondar hugsanir í tengslum við hryðjuverkaárásina. Hvernig er hægt að skilja svona óskiljanlega atburði? Í þessari myndasögu sýnir Nora Dåsnes hvernig ofurvenjuleg norsk stelpa upplifði hryðjuverkaárásina þann 22. júlí.

Þó að Rebekka hafi ekki orðið fyrir árásinni með beinum hætti upplifir hún tímabilið eftir árásina eins og neyðarástand sem einkennist af uppnámi, hræðslu og kvíða.

 

Myndskreytingar Dåsnes eru í daufum, grábláum litum og með mjúkum og tjáningarríkum línum, og hún fer létt með að halda mismunandi tímasviðum bókarinnar aðskildum. Atburðirnir 22. júlí eru teiknaðir með rauðu, martraðir Rebekku í svörtu, og þannig verða opnurnar sem sýna blómin við dómkirkjuna nánast yfirþyrmandi í litadýrð sinni.

 

Samtölin eru á talmáli og eru sannfærandi með tilliti til sögutímans. Einnig auðgar það textann að Dåsnes fléttar inn í hann netleit Rebekku að því hvað hafi eiginlega gerst, og brot úr ræðum forsætisráðherrans og kóngsins.

 

Ubesvart anrop („Ósvarað kall“, hefur ekki komið út á íslensku) er sterk, trúverðug og blæbrigðarík bók um þau áhrif sem hryðjuverkaárásin hafði á alla norsku þjóðina, ekki aðeins þau sem voru í hringiðu atburðanna þann 22. júlí 2011.

NORA DÅSNES, fædd 1995, er rithöfundur og myndskreytir sem nam við Kingston University í Lundúnum. Frumraun hennar sem höfundar og myndskreytis var árið 2020, þegar hún sendi frá sér myndasöguna Ti kniver i hjertet. Fyrir hana hlaut hún bæði Pondus-verðlaunin og verðlaun norska menningarmálaráðuneytisins fyrir bestu myndasögu ársins.


Ubesvart anrop er önnur myndasaga hennar.