Ragnhild Berstad

Ragnhild Berstad
Photographer
Norden.org
Tilnefnd fyrir verkið „Cardinem“

Þetta verk er sjaldgæft sambland af skýrum tærleika og draumkenndri ró, sem líkt og hægir á tímanum. Cardinem þýðir vendipunktur.

Verkið er samið fyrir verkefnið Scelsi sóttur heim að nýju. Ragnhild Berstad var ein af átta tónskáldum sem hljóðfærahópurinn Klangforum Wien bauð að skrifa ný verk með upphafspunkt í hljóðupptökum, óþekktum fram að þeim tíma, af tónskáldinu Giacinto Scelsi (1905–1988) að leika af fingrum fram á hljóðfærið ondíólu, frumstæða gerð af hljóðgervli.

Cardinem er auk þess innblásið af fuglasöng — samþjöppuðum míkrótónum úr gulbrystingi fyrir utan glugga tónskáldsins. Berstad vinnur oft út frá hljómandi efnivið í tónsmíðum sínum. Í Cardinem hafa fuglasöngurinn og ávöl, eilítið skjálfandi rafhljóðaveröld ondíólunnar verið flutt út í opna, titrandi hljómræna byggingarlist fyrir litla sinfóníuhljómsveit, teiknaða með grönnum en öruggum línum sem litast af einstakri orku.