Sankt Nielsen og Madam Karrebæk (myndskr.)

Da Gud var dreng
Sankt Nielsen og Madam Karrebæk (myndskr.): Da Gud var dreng. Myndabók, Høst & Søn, 2015

Allt hefst þetta með frumuskiptingu. Úr henni verður skordýr, sem þróast í undursamlega veru með sex fótleggi og sex handleggi, sem kemur á daginn að er drengurinn Guð. Því næst er velt fram mögulegum svörum við spurningum sem flest forvitin börn spyrja foreldra sína: „Hvað var til áður en Guð skapaði heiminn?“ – eða, eins og danska poppsveitin Shubidua söng: „Hver ætli maður sé áður en maður verður til?“

Í fyrstu blakta svörin í myrkrinu og verða svo að „Hey, hvað var þetta?“ þegar ljósið kviknar. Guð sér alla fegurðina og allan hryllinginn – og laumast svo út í buskann með þessum orðum: „Takk, örlög.“

Málfarið í bókinni er hugvitsamlegt og frjótt, spannar allt frá gráti til hláturs og frá heimspekilegum vangaveltum til málalenginga, auk gáskafullrar gnægðar mynda, sem gæða endalausar spurningarnar sjaldséðri endaleysu, með vísunum í Michelangelo, Bruegel og ekki síst ævistarf Dorte Karrebæk sjálfrar.

Höfundurinn Sankt Nielsen var áður þekktur sem fjöllistamaðurinn Claus Beck-Nielsen, en lýsti yfir dauða sínum árið 2001 og reis því næst upp undir nafninu Das Beckwerk. Nú hefur hann tekið sjálfan sig í dýrlingatölu sem verndardýrling trylltra sýna og barna 20. og 21. aldarinnar.

Myndskreytirinn Madam Karrebæk er alnafna Dorte Karrebæk, sem hefur verið meðal fremstu myndskreyta Danmerkur um áratuga skeið, með auðþekktan stíl sem jafnframt er í stöðugri endurnýjun. Sankt Nielsen hlýtur ennfremur að gleðjast yfir því að greinilegur svipur er með höfundi og skaparanum sem mundar blýantinn stóra.

Í bókinni er tekist á við stórar, tilvistarlegar spurningar um tilurð heimsins jafnt sem einstaklingsins. Líkt og frumuskiptingin sem á sér stað á fyrstu síðum bókarinnar þróast sagan og vex að umfangi og fjölbreytileika. En öfugt við Guð, sem laumast hljóðlega út í bláinn þegar hann sér hvað orðið er, verður lesandinn að laumast aftur inn í bókina til að fullvissa sig um að sér hafi ekki yfirsést neitt. 

Til hamingju, lesendur á öllum aldri, með að hafa fengið að stíga um borð í þessa bók, þegar svo virðist sem hinar stóru spurningar tilverunnar séu á floti allt í kringum okkur.