Verðlaunahafi 2008

Du levande
Sænski kvikmyndaleikstjórinn Roy Andersson og Pernilla Sandström framleiðandi hljóta kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir kvikmyndina Þið, sem lifið.

Þegar Roy Andersson tók við kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þann 15. október. Hann þakkaði hann kærlega fyrir viðurkenninguna og lýsti virðingu sinni á starfi Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

"Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein bestu verðlaun sem hægt er að fá, því þau undirstrika að kvikmyndir eru ekki eingöngu afþreying, heldur einnig mikilvægur þáttur af menningarlífinu", sagði hann. "Mínar kvikmyndir skírskota á vissan hátt til alls heimsins, en í þeim er jafnframt norrænt andrúmsloft sem skapar þeim sérstöðu og sérkenni".

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali á verðlaunahafa ársins segir:

"Í þessari stórkostlegri kvikmynd Þið, sem lifið veltir Roy Andersson fyrir sér lífinu, dauðanum og veikleikum mannskepnunnar. Með einstökum stílþrifum í myndatöku og frásagnartakti vekur þessi sinfónía daglegs lífs okkur til umhugsunar um gildi kvikmynda, en kennir okkur líka að skynja kvikmyndarfrásögn á nýjan veg. Í stað hefðbundinnar línulegrar frásagnar er Þið, sem lifið gerð úr röð samsettra atriða, sögubrotum úr heimi sem er í senn dapur og afkáralega fyndinn. Þessar meinfyndnu og tragísku svipmyndir sýna okkur manninn í sinni fegurstu og ljótustu mynd, þær koma okkur til að hlæja og vekja okkur til umhugsunar. Í stuttu máli minnir Þið, sem lifið okkur á kosti kvikmyndarinnar til að miðla afar persónulegri sýn á heiminn".

Þessi meinfyndna kvikmynd Roy Anderssons var frumsýnd í Cannes 2007, en þar tók hún þátt í Un Certain Regard keppninni. Sama ár var kvikmyndin valin sem framlag Svía til Óskarsverðlaunanna. Hún vann einnig til Gullþrennu verðlaunanna á árinu 2008 (besta kvikmyndin, besti leikstjórinn, besta handritið), fékk silfurverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago og var tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir verðlaunahafann Roy Andersson. „Það hefur mjög mikla þýðingu fyrir mig að hljóta þessi virtu verðlaun. Ég tel ástæðu til að hrósa Norðurlanaráði fyrir þá viðleitni til að setja kvikmyndina á stall og meta sem æðri list, eins og gert hefur verið með öðrum verðlaunum fyrir tónlist og bókmenntir.
En auk þess heiðurs sem verðlaunin eru mér skipta þau einnig máli í raun, vegna þess að peningarnir sem fylgja viðurkenningunni veita mér einstakt tækifæri til að flýta rannsókn og handritagerð fyrir næstu kvikmynd mína, en þar mun mér gefast tækifæri á að nýta nýja tækni".

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs renna til leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda kvikmyndar. Verðlaunin nema jafnvirði 350.000 danskra króna og verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki þann 28. október.

Þessi eftirsóttu verðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndaframleiðslu sem markast af þjóðlegum einkennum og listrænum frumleika, verða veitt í fimmta sinn á þessu ári. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2002 fyrir finnsku kvikmyndina Þögli maðurinn (Aki Kaurismäki), árið 2005 var danska kvikmyndin MORÐIÐ (Per Fly) verðlaunuð, árið 2006 fóru verðlaunin til Svíþjóðar fyrir kvikmyndina ZOZO (Josef Fares) og árið 2007 til Danmerkur fyrir kvikmyndina LISTIN AÐ GRÁTA Í KÓR (Peter Schønau Fog).

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru ein af mörgum verðlaunum Norðurlandaráðs, en önnur verðlaun eru veitt fyrir bókmenntir, tónlist og náttúru- og umhverfisvernd. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga Norðurlandabúa á norrænum á bókmenntum, tungumálum, tónlist og kvikmyndum.