Gunda – Noregur

Gunda, 2021, Filmprize
Photographer
Egil Håskjold Larsen & Victor Kossakovsky
Norska myndin „Gunda“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í heimildarmynd sinni Aquarela minnti Victor Kossakovsky okkur á hverfulleika mannvistar á jörðinni. Gunda er áminning sama handritshöfundar og leikstjóra um þá staðreynd að við deilum plánetunni okkar með milljörðum annarra dýrategunda. Gegnum kynni af gyltu með grísi (henni Gundu, sem myndin dregur nafn sitt af), tveimur snjöllum kúm og einfættum kjúklingi sem stelur senunni tekst Kossakovsky að endurkvarða siðferðilega heimsmynd okkar og minna okkur á hið innbyggða gildi lífsins og þá ráðgátu sem felst í vitund allra dýra, þar með talinni okkar eigin.

Rökstuðningur

Gunda er ein þessara fágætu heimildarmynda sem veita nýja sýn á heiminn. Leikstjórinn Victor Kossakovsky flytur okkur frá hinu mennska sjónarhorni inn í heim dýranna, sem lýtur annars konar rökum og hægari takti. Þar kynnumst við Gundu, sem býr á býlinu Grøstad í Vestfold í Noregi ásamt grísunum sínum. Mitt í sveitasælunni kemur sú grimmd sem ávallt býr í náttúrunni skýrt í ljós. Einfættur kjúklingur og stóísk kúahjörð eru hinar aðalpersónurnar í mynd sem sýnir mikla auðmýkt gagnvart dýrunum en hefur jafnframt hvassan pólitískan brodd. Skörp og ljóðræn myndataka Egils Håskjold Larsen á sinn þátt í að gera Gundu að frábærri kvikmyndaupplifun.

Handritshöfundur/leikstjóri – Victor Kossakovsky

Victor Kossakovsky fæddist í Rússlandi árið 1961 og er frumlegur og margverðlaunaður heimildamyndagerðarmaður. Myndir hans spanna mörg ólík viðfangsefni en kafa ávallt í samspil veruleikans og ljóðrænna augnablika. Við gerð mynda sinna gegnir Kossakovsky oft hlutverkum leikstjóra, klippara, tökumanns og handritshöfundar í senn. Sem stendur hefur hann aðsetur í Berlín og starfar við að kenna og leiðbeina upprennandi kvikmyndagerðarfólki.

Kossakovsky hóf kvikmyndaferil sinn árið 1978 í hinu fræga heimildamyndastúdíói í Leníngrad sem aðstoðartökumaður, aðstoðarleikstjóri og klippari. Hann nam handritaskrif og leikstjórn við HCSF í Moskvu 1986–1988. Árið 1989 leikstýrði hann fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Losev, og gat sér frægðar árið 1992 fyrir heimildarmyndina Belovy, sem hlaut yfir tug verðlauna, þar á meðal Joris Ivens-verðlaun hollensku sjónvarpsstöðvarinnar VPRO og áhorfendaverðlaun á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni í Amsterdam (IDFA).

Árið 2011 var myndin ¡Vivan las antípodas! eftir Kossakovsky valin sem opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum og hlaut meðal annars einnig Cinematic Vision-verðlaunin á Silverdocs-hátíðinni. Heimildarmynd hans Aquarela, tæknilega byltingarkennd mynd með alþjóðlegri skírskotun sem fjallar um hin mörgu form vatnsins, var einnig frumsýnd í Feneyjum 2018 og var í kjölfarið tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmyndin, auk annarra viðurkenninga.

Gunda var valin til sýningar á nærri 30 alþjóðlegar hátíðir og einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Framleiðandi – Anita Rehoff Larsen

Norski framleiðandinn Anita Rehoff Larsen (1977) hefur starfað með kvikmyndaleikstjórum í Noregi og á alþjóðavettvangi frá árinu 2010. Hún er meðeigandi framleiðslufyrirtækisins Sant & Usant ásamt framleiðandanum og leikstjóranum Tone Grøttjord-Glenne.

Rehoff Larsen nam kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu við Sunderland-háskóla í Bretlandi og þróaði færni sína sem alþjóðlegur framleiðandi enn frekar hjá EURODOC. Hún gat sér gott orð sem heimildamyndaframleiðandi á alþjóðlegum vettvangi árið 2012, þegar When the Boys Return eftir Tone Andresen og Til ungdommen eftir Kari Anne Moe voru báðar frumsýndar á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni í Amsterdam. Margar þeirra mynda sem hún hefur hlotið lof fyrir eru þroskasögur úr heimi íþróttanna –  Dans för livet eftir Sichen Ai og Erlend E. Mo, Maiko: Dancing Child eftir Åse Svenheim Drivenes, Varicella eftir Victor Kossakovsky og nú síðast Sisters on Track eftir Corinne van der Borch og Tone Grøttjord-Glenne. Sú síðastnefnda er fyrsta norska heimildarmyndin sem framleidd er á vegum Netflix.

Gunda eftir Kossakovsky, með Joaquin Phoenix sem yfirframleiðanda, var heimsfrumsýnd í Encounters-flokknum á kvikmyndahátíðinni í Berlín og sló umsvifalaust í gegn hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Myndin var seld á yfir 40 svæði og tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Gunda

Titill á ensku: Gunda

Leikstjóri: Viktor Kossakovsky

Handritshöfundur: Viktor Kossakovsky

Framleiðandi: Anita Rehoff Larsen

Framleiðslufyrirtæki: Sant & Usant

Lengd: 93 mínútur

Dreifing í heimalandi: Arthaus

Alþjóðleg dreifing: Cinephil