Ingrid Z. Aanestad og Sunniva Sunde Krogseth

Ingrid Z. Aanestad och Sunniva Sunde Krogseth
Ljósmyndari
Cato Lein / Johanne Nyborg
Ingrid Z. Aanestad og Sunniva Sunde Krogseth (myndskr.): Berre mor og Ellinor. Myndabók, Gyldendal, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Ellinor býr með mömmu sinni. Þegar mamma er hress finnst þeim gaman að gera ýmislegt skemmtilegt saman. Til dæmis: búa til sushi, mála myndir, hita kakó, skrifa lista yfir „hluti sem þær kunna að meta“, og að hjóla úti í rigningunni. Mamma er skapandi, hún er til staðar, notar rauðan varalit og syngur fyrir Ellinor á kvöldin. Stine, vinkona Ellinor, segir að mamma hennar sé sæt og í fínum fötum. En Ellinor trúir henni fyrir því að mamma geti líka verið leið. Hefði hún kannski átt að sleppa því?

Vangaveltur Ellinor um þetta ganga eins og rauður þráður gegnum bókina. Og að lokum er spurningunni svarað. Af mömmu hennar.

Myndskreytingarnar eru í náttúrulegum litum hafs, jarðar og himins þar sem myrkrið býr einnig yfir hlýju. Mjúkar línur vekja hugrenningatengsl við móðurlíkamann. Við hús snigilsins. Og við öldur.

Myndir og texti fléttast fimlega saman og veita nána og skýra innsýn í hversdag Ellinor og mömmu. Bæði hið ytra líf þeirra og tilfinningalífið hið innra.

Hafið er fyrirferðarmikið í Ellinor, mömmu og sögunni. Í hafinu rúmast svo mikið, það er fullt af fögrum fjársjóðum, skeljum og dýrum. En það er djúpt. Þar sem það er dýpst er allt dimmt og hljótt. Mamma er eins og hafið. Það að upplifa andlegan sársauka er hluti af því að vera manneskja. Og á sama hátt og náttúran hefur innbyggða getu til að græða sjálfa sig hefur mannfólkið það líka.

 

Berre mor og Ellinor („Bara mamma og Ellinor“, ekki gefin út á íslensku) er lágstemmd, hjartnæm og ljóðræn bók með sterkar rætur í hversdagsleikanum sem lýsir upplifun barns af því að eiga mömmu sem glímir við geðrænan vanda. Þetta er gert á frumlegan og lipran hátt þar sem ástand móðurinnar verður meinlaust, blæbrigði þess eru sýnd og því gefið pláss. Móðirin er meira en bara depurðin sem þjakar hana. Hún er líka alltaf hún sjálf, mamman sem elskar Ellinor.

 

Ingrid Z. Aanestad (f.1983) hóf ritferilinn með skáldsögunni I dag er ein fin dag (2006). Síðan þá hefur hún hlotið lof fyrir fjölda skáldsagna fyrir fullorðna og einnig gefið út esseyjur hjá sama útgefanda. Berre mor og Ellinor er fyrsta barnabók hennar.

 

Sunniva Sunde Krogseth (f. 1987) starfar sem myndskreytir í Ósló og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir myndskreytingar sínar. Fyrsta barnabók hennar var Nattsvermerne (2021). Fyrir þá bók hlaut hún Trollkrittet, verðlaun félags norskra barna- og unglingabókahöfunda (NBU) fyrir bestu frumraun.