Lena Willemark

Lena Willemark

Lena Willemark

Photographer
Mats Lefvert
Lena Willemark er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Rökstuðningur:

Með óbilandi getu sinni til að móta ólíka þætti í náttúrulega heild hefur hin goðsagnakennda tónlistarkona Lena Willemark hlotið miðlægan sess í sænskri þjóðlagatónlist og í sænsku tónlistarlífi almennt. Hún er brautryðjandi sem söngkona, tónskáld og hljóðfæraleikari og af óbilandi krafti heldur hún áfram að kanna lendur tónlistarinnar og eigin listsköpunar.

Hún hlaut einstakan tónlistarfjársjóð í veganesti frá uppvaxtarárum sínum í Älvdalen í Svíþjóð og fer um leið ótroðnar slóðir með samsetningum þvert á tónlistargreinar. Hér er á ferðinni einstök tónlistarkona sem gerir gamalt að nýju, er ávallt leitandi og á erindi jafnt í tónlistarhúsum sem djassklúbbum, í heimalandinu og alþjóðlega.

Willemark hefur einnig hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars fjölda Grammis-verðlauna, sem eru stærstu tónlistarverðlaun Svía. Hún er meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni og ber hinn virta titil Riksspelman.