Ráðherrar: Menning er drifkraftur sjálfbærrar þróunar á Norðurlöndum

28.10.20 | Fréttir
Roskilde Festival 2019
Ljósmyndari
Celina Dahl/Ritzau Scanpix

Myndin sýnir Art Zone-hluta Hróarskelduhátíðarinnar í Danmörku 2019. Sjálfbærni er höfð til hliðsjónar í öllum þáttum hátíðarinnar, allt frá matsölu til meðhöndlunar úrgangs.

Sjálfbærni var græni þráðurinn á öðrum stafrænum ráðherrafundi menningarmálaráðherranna undir formennsku Danmerkur. Ráðherrarnir ræddu forgangsröðun næstu ára í menningarmálum til að ná markmiðum hinnar nýju framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar og efla um leið samheldni, þróun og samstarf í menningargeira á öllum Norðurlöndum.

Hlutverk menningarinnar í grænum umskiptum var í brennidepli á öðrum ráðherrafundi norrænu menningarmálaráðherranna á miðvikudag en samstarfsáætlunin og fjárhagsrammi næsta árs voru einnig til umfjöllunar. Þó að Covid-19 hafi breytt ýmsu um möguleika fólks til að hittast og starfa hefur faraldurinn hvorki haft áhrif á metnað menningarmálaráðherranna né þróun norræns samstarfs á sviði menningarmála.

„Þetta hefur verið sérstakt formennskuár, því engir staðfundir hafa farið fram og við höfum því ekki getað setið í sama herbergi og okkar norrænu kollegar til að ræða þróun hinnar norrænu stefnu í menningarmálum. Til allrar hamingju hafa fjarfundirnir gengið vel og gert okkur kleift að taka mikilvægar ákvarðanir,“ sagði Joy Mogensen, menningarmálaráðherra Danmerkur og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál að loknum öðrum stafræna ráðherrafundi ársins, þar sem norrænu menningarmálaráðherrarnir ræddu meðal annars forgangsröðun næstu ára. 

 

„Við getum slegið því föstu að norrænt menningarsamstarf stendur afar styrkum fótum, einnig nú þegar óvissa ríkir í menningarmálum, og að metnaður fyrir næstu ár er enn mikill. Listir og menning leika lykilhlutverk í samheldni, stuðningi og þátttöku almennings í norrænu löndunum og í sjálfbærri þróun á Norðurlöndum í heild. Þetta mun allt liggja ljóst fyrir þegar samstarfsáætlunin fyrir tímabilið 2021–2024 verður kynnt í janúar,“ sagði Joy Mogensen að lokum.

Menningin byggir brýr – einnig í starfinu að framtíðarsýninni

Menning og fjölmiðlar leika lykilhlutverk í norrænu samstarfi og voru í raun kveikjan að stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971. Fyrstu kynni norrænna borgara af nágrannaþjóðum sínum verða oft í gegnum bókmenntir, sjónvarpsþáttaraðir og tónlist.

Menningin skapar einnig vettvang fyrir aðkomu almennings og hjálpar okkur að skilja og takast á við hnattrænar áskoranir á borð við loftslagsvandann og heimsfaraldur kórónuveirunnar. Menningarsamstarfinu er einnig lýst sem mikilvægum drifkrafti fyrir græn umskipti á Norðurlöndum í framkvæmdaáætlun ráðherranefndarinnar fyrir framtíðarsýnina 2030.

„Menningarsamstarfið og gagnkvæmur tungumálaskilningur leggja grunn að norrænu samstarfi og eru einnig rauður – eða í þetta sinn ef til vill grænn – þráður í starfinu að framtíðarsýninni um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Nokkur þýðingarmikil dæmi úr framkvæmdaáætluninni sem sýna framlag menningargeirans eru aðgerðir í þágu menningar- og tungumálaskilnings barna og ungmenna, þverfaglegt verkefni um sjálfbæran lífsstíl og starfið að lýðræði, samþættingu og samheldni á Norðurlöndum,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Paula Lehtomäki.

Ný samstarfsáætlun um menningarmál kynnt 2021

Væntanleg samstarfsáætlun á sviði menningarmála fyrir tímabilið 2021–2024 byggir á framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030, hinum þremur stefnumarkandi áherslusviðum hennar: grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum, og framkvæmdaáætluninni og markmiðum hennar. Samstarfsáætlunin verður kynnt í janúar 2021 þegar Finnland hefur tekið við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Ákvörðun um fjárhagsáætlunina tekin í nóvember

Formleg ákvörðun um heildarfjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2021 verður tekin af norrænu samstarfsráðherrunum í nóvemberlok.  Einn liður þeirrar ákvörðunar varðar fyrirhugaðan niðurskurð á sviði menningarmála fyrir árið 2021.