Vöxtur, velferð og gildi
Áætlun fyrir formennsku Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2015
Upplýsingar
Útgáfudagur
Lýsing
Danir gegna formennsku í samstarfi norrænu ríkisstjórnanna árið 2015. Þar með taka Danir við keflinu í mikilvægu samstarfi sem í áranna rás hefur stutt við og stuðlað að því að þróa sterka samkennd norrænu landanna. Við Norðurlandabúar erum bundnir sterkum böndum sameiginlegrar sögu og sameiginlegra gilda. Á þessum grundvelli höfum við þróað samstarf þar sem við veitum hvert öðru innblástur, styðjum hvert annað og finnum í krafti samstarfsins hentugar og nútímalegar lausnir á þeim úrlausnarefnum sem við stöndum frammi fyrir.Sem dæmi má nefna áralangt samstarf okkar um að draga úr stjórnsýsluhindrunum milli landanna. Þetta starf ræður úrslitum um það hvort norræn fyrirtæki og einstaklingar geti nýtt sér þá kosti sem felast í landfræðilegri nánd, líkum skoðunum og menningarlegum skyldleika okkar og það verður áfram eitt af megináherslusviðunum í norrænu samstarfi.Norræn samvinna hefur í tímans rás skilað margvíslegum árangri. En það dugar ekki að lifa á fornri frægð. Það er lykilatriði að samstarfið geti stöðugt skilað raunverulegum ávinningi og hagnýtum lausnum á þeim nýju og breytilegu viðfangsefnum sem samfélög okkar þurfa að takast á við.Þetta á enn frekar við nú þegar við erum að byrja að losa okkur út úr alþjóðlegri efnahagskreppu sem hefur markað djúp spor á Norðurlöndum eins og annars staðar. Kreppan hefur neytt okkur til að taka erfiðar ákvarðanir – ekki síst til að halda í norrænu velferðarkerfin. Þau hafa reynst sterkbyggð en hafa þó ekki farið varhluta af kreppunni.Á komandi árum er lykilatriði að við getum endanlega sagt skilið við kreppuna og skapað grundvöll fyrir því að samfélög okkar geti áfram verið þróttmikil og nýskapandi. Og að áfram bjóðist tækifæri fyrir þá sem geta séð um sig sjálfir og að þeir sem eiga í erfiðleikum með það njóti verndar.Danir munu í formennskutíð sinni leggja áherslu á fjögur viðfangsefni sem eiga að efla norrænt samstarf og gera það markvissara. Við eigum að hafa vöxt og atvinnu í fyrirrúmi; við eigum að standa vörð um norræna velferð; við eigum að auka vitundina um norræn gildi með því að styrkja norræna „vörumerkið“; og við eigum að leggja áherslu á samstarfið um norðurskautið.Við hlökkum til að eiga gott og gagnlegt samstarf við norræna vini okkar á komandi árum.
Útgáfunúmer
2014:749