Ensilumi – Finnland

Any Day Now
Ljósmyndari
Sami Kuokkanen
Finnska kvikmyndin „Ensilumi“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Hinn 13 ára gamli Ramin Mehdipour og írönsk fjölskylda hans búa í móttökustöð fyrir flóttafólk í Finnlandi. Þegar Ramin er nýkominn í sumarfrí fær fjölskyldan þær skelfilegu fréttir að umsókn þeirra um hæli hafi verið hafnað. Mehdipour-fjölskyldan gerir lokatilraun til að áfrýja málinu, heldur áfram með sitt daglega líf og reynir að halda í jákvæðnina þrátt fyrir yfirvofandi hættu á brottvísun. Þegar Ramin byrjar nýtt skólaár er sérhvert augnablik og sérhver vinátta orðin dýrmætari en nokkru sinni fyrr.

Rökstuðningur

Ensilumi (Any Day Now) er ljóðræn saga með algilda skírskotun, saga af fjölskyldu sem stendur saman – jafnvel þegar henni er neitað um morgundaginn. Leikstjórinn Hamy Ramezan treystir áhorfendum sínum. Efnistök hans eru í senn ákveðin og blíðleg og hann hikar ekki við að grípa til stórbrotinna tilfinninga og húmors. Leikurinn er fyrsta flokks.men

Handritshöfundur/leikstjóri – Hamy Ramezan

Hamy Ramezan (1979) er finnsk-íranskur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur.

Eftir að hafa flúið ofsóknir í Íran og lifað af vist í flóttamannabúðum í Júgóslavíu á barnsaldri kom Ramezan til Finnlands ásamt fjölskyldu sinni árið 1990. Hann útskrifaðist frá kvikmyndaskóla UCA í Farnham í Bretlandi árið 2007 og hefur gert fjölda stuttmynda síðan. Viikko ennen vappua  hlaut viðurkenninguna Special Jury Mention á stuttmyndahátíðinni í Clermont-Ferrand og Kuuntele (2015) var valin til sýninga á Directors‘ Fortnight í Cannes og tilnefnd til verðlauna sem besta stuttmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Ensilumi er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2021 í flokknum Generation 14plus. Næsta mynd Ramezans í fullri lengd, Madly in Love (vinnutitill), þar sem hann skrifar aftur handrit í samstarfi við Antti Rautava, verður ástarsaga um einstætt foreldri og reiðistjórnun.

Handritshöfundur – Antti Rautava

Antti Rautava fæddist í Helsinki árið 1979. Rautava útskrifaðist af kvikmynda- og sjónvarpsbraut hönnunarháskólans í Lahti árið 2007. Hann hefur skrifað stuttmyndir, leikrit og prósaverk. Ensilumi, sem hann skrifaði handrit að ásamt leikstjóranum og handritshöfundinum Hamy Ramezan, er fyrsta kvikmyndahandrit hans í fullri lengd.

Framleiðandi – Jussi Rantamäki

Jussi Rantamäki (1980) fæddist í Kokkola í Finnlandi.Rantamäki hefur starfað fyrir Aamu Film Company síðan 2008 og eignaðist fyrirtækið árið 2013. Sem framleiðandi hefur hann stofnað til og lagt rækt við fjölda langtímasambanda við ýmsa kvikmyndahöfunda sem hann hefur unnið að stuttmyndum með, og hjálpað þeim í framhaldinu að ná til fleiri áhorfenda með metnaðarfyllri alþjóðlegum kvikmyndum í fullri lengd. Rantamäki var yfirframleiðandi myndarinnar Taulukauppiaat eftir Juho Kuosmanen, sem hlaut Cannes Cinéfondation-verðlaunin árið 2010. Í kjölfarið framleiddi hann fyrstu mynd hans í fullri lengd, Besti dagur í lífi Olli Mäki, sem hlaut mikið lof, vann til Un Certain Regard-verðlaunanna á Cannes 2016 og var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.

Önnur kvikmynd Kuosmanens, Klefi nr. 6, hlaut hin virtu Grand Prix-verðlaun í Cannes 2021. Á meðal annarra handritshöfunda og leikstjóra sem Rantamäki hefur framleitt myndir eftir eru Hannaleena Hauru (Lauri Mäntyvaaran tuuheet ripset), Elina Talvensaari (Neiti Aika) og Mikko Myllylahti (Metsurin Tarina). Rantamäki hlaut listaverðlaun finnska ríkisins árið 2016.

Framleiðandi – Emilia Haukka

Emilia Haukka er í fullu starfi sem framleiðandi hjá Aamu Film Company, þar sem hún hefur unnið að hálfri tylft stuttmynda, kvikmynda í fullri lengd og heimildarmynda undanfarin 2-3 ár. Þar á meðal eru heimildarmynd Elinu Talvensaari Neiti Aika, sem hlaut verðlaun sérstakrar dómnefndar á hátíðinni í Þessalóníku árið 2020, og gamanmynd Hönnuleenu Hauru, Fucking with Nobody. Ásamt Jussi Rantamäki hefur hún framleitt kvikmyndina Klefi nr. 6, sem hlaut Grand Prix-verðlaunin í Cannes 2021, og væntanlega mynd Mikko Myllylahti, Metsurin tarina.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Ensilumi

Titill á ensku: Any Day Now

Leikstjóri: Hamy Ramezan

Handritshöfundur: Hamy Ramezan, Antti Rautava

Aðalhlutverk: Aran-Sina Keshvari, Shahab Hosseini, Shabnam Ghorbani, Kimiya 
Eskandari 

Framleiðendur: Jussi Rantamäki, Emilia Haukka

Framleiðslufyrirtæki: Aamu Film Company

Lengd: 82 mínútur

Dreifing í heimalandi: Nordisk Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: New Europe Film Sales