Yfirlýsing um Ísrael og Palestínu frá forsætisnefnd Norðurlandaráðs

08.04.24 | Yfirlýsing
Yfirlýsing um Ísrael og Palestínu frá forsætisnefnd Norðurlandaráðs tekin til meðferðar á fundi forsætisnefndar í Þórshöfn.

Upplýsingar

Samþykkt
08.04.2024

Tilmæli Norðurlandaráðs nr. 21/2015 til norrænna ríkisstjórna stendur fyrir sínu og á jafn vel við í dag og árið 2015: „Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvetji Ísraelsmenn og Palestínumenn og veiti þeim stuðning til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggi á alþjóðarétti og ályktunum SÞ.“

Stríðið á milli Palestínu og Ísrael sem staðið hefur frá því í október 2023 hefur nú þegar valdið miklu mannfalli óbreyttra borgara.

Norðurlönd hafa komið fram á alþjóðavettvangi sem boðberar friðar og hvatt til alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun og skapað umgjörð fyrir mikilvægar friðarviðræður í gegnum tíðina. Nægir þar að nefna friðarviðræðurnar á milli Reagans og Gorbasjovs á Íslandi árið 1986 og Oslóarsamkomulagið 1993 og 1995 milli Palestínu og Ísrael.

Norðurlönd hafa lagt áherslu á að styrkja alþjóðastofnanir, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og að efla og standa vörð um alþjóðalög og -sáttmála. Rík hefð er fyrir því að norrænu ríkin miðli málum í deilum annarra þjóða og verndi mannréttindi með ráðum og dáð.

Friður er eitt af norrænu gildunum og sterkur vilji er fyrir því að norrænu löndin og Norðurlandaráð beiti sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilum. Norðurlöndin hafa gott orð á sér úti í hinum stóra heimi sem boðberar friðsamlegra lausna og þau njóta mikils trausts. Fyrir lítil lönd eins og okkar með hnattrænar tengingar, eru bæði siðferðileg og nytjaleg rök fyrir þessari vinnu og skýrt norrænt notagildi.