Metfjöldi tillagna til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

04.06.21 | Fréttir
Kvinde henter grøntsager

Grøntsagsudlevering i en Rekoring i Sverige. Rekoring-konceptet er blandt årets nominerede til Nordisk Råds miljøpris.

Photographer
Johan Nilsson
Fjöldi tillagna sem Norðurlandaráði hafa borist vegna umhverfisverðlauna ársins slær öll met. Hver sem er getur sent inn tillögu sem verðskuldar umhverfisverðlaunin og á þessu ári hefur verið sérlega vinsælt að taka þátt. Sendar hafa verið inn tillögur að tilnefningu meira en 100 mismunandi verkefna og einstaklinga á Norðurlöndum. Nú er komið að dómnefndinni að útnefna tilnefningar.

Umhverfisverðlaunin eru einu verðlaun Norðurlandaráðs þar sem hver sem er getur sent inn tillögu og í ár hefur fjöldi þátttakenda slegið öll met. Norðurlandaráði hafa borist 138 tillögur um alls 109 mismunandi verkefni frá öllum Norðurlöndunum.

Tillögurnar ná yfir fjölda fjölbreyttra verkefna, samtaka og einstaklinga á Norðurlöndum sem leggja eitthvað sérstakt af mörkum fyrir sjálfbær matvælakerfi en það er þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár.

Lars Hindkjær, formaður dómnefndarinnar, segir:

Síðustu ár hefur fjöldi tillagna farið vaxandi og á þessu ári eru fyrri met aftur slegin þannig að eitthvað bendir til þess að umhverfismál almennt og þemað sjálfbær matvælakerfi höfði sterkt til íbúa norrænu landanna. Við verðum að borða til þess að lifa og sömuleiðis er matvælaframleiðsla afar sýnileg í landslagi okkar. Þess vegna skiptir máli að beina sjónum að því að matvælakerfin, frá framleiðslu á diskinn, séu sjálfbær og ábyrg.

Sjálfbær matvælakerfi styðja við nokkur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, meðal annars ábyrga neyslu og framleiðslu (12), aðgerðir í loftslagsmálum (13), líf í vatni og auðlindir þess (14) og líf á landi og líffræðileg fjölbreytni (15).

Landbúnaður sem nýtur stuðnings almennings, fiskveiðar í heimabyggð og Michelin-kokkar

Allar þessar tillögur veita einstaka sýn á hin margvíslegu verkefni og aðgerðir sem eru fyrir hendi á matvælasviðinu á Norðurlöndum og stuðla að því að gera matvælakerfin sjálfbærari.

Við erum alsæl með þennan mikla fjölda tilnefninga og framlag norræns almennings til þess að safna saman þessari þekkingu í tengslum við umhverfisverðlaunin. Óháð því hvaða verkefni fá útnefningu og loks verðlaunin sjálf finnst mér að þau sem eru á listanum yfir innsendar tilnefningar eigi að vera stolt af því.

Lars Hindkjær, formaður dómnefndari

Greint verður frá því 3. september 2021 hverjar hinna 109 innsendu tillagna verða útnefndar sem tilnefningar. Handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 verður tilkynntur á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember.

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í 27. sinn á þessu ári og árið 2021 er kastljósinu beint að norrænum verkefnum þar sem framlag til þess að tryggja sjálfbært matvælakerfi er umtalsvert. Hver sem er getur sent inn tilnefningar og verðlaunaupphæðin nemur 300.000 dönskum krónum.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Hver sem er getur tilnefnt. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar.