Leiðbeiningar: Að flytja til Grænlands
Ef þú ert ríkisborgari norræns ríkis er þér frjálst að flytja til Grænlands, dvelja þar og starfa. Þú þarft hvorki vegabréfsáritun, atvinnuleyfi né dvalarleyfi.
Búslóð
Flytjir þú frá norrænu landi eða ESB-landi til Grænlands máttu almennt hafa með þér búslóð án þess að greiða af henni toll eða virðisaukaskatt. Allar vörur sem fluttar eru með skipum til Grænlands fara gegnum Álaborg og því þarftu fyrst að koma búslóðinni til Danmerkur. Hafir þú fengið vinnu á Grænlandi greiðir vinnuveitandinn oftast fyrir flutning á búslóð og sér þar með einnig um þau praktísku atriði sem huga þarf að.
Athugaðu að búslóðin má ekki innihalda vín, sterkt áfengi, sígarettur eða matvæli með lítið geymsluþol. Að auki gilda takmarkanir um svonefndan hættulegan varning, þar á meðal sprengifim efni og gashylki. Innihaldi búslóðin vopn af einhverju tagi þarf eigandinn sjálfur að útvega tilskilin leyfi fyrir innflutningi þeirra.
Grænland er eitt afar fárra landa í heiminum sem innheimta ekki virðisaukaskatt. Hafir þú keypt nýjan varning í Danmörku fyrir búslóðaflutningana getur þú því fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af upphæðum yfir 300 dönskum krónum. Varningurinn þarf að vera ónotaður og í upprunalegum umbúðum. Þar að auki þarftu að fá verslunina til að rita grænlenska heimilisfangið þitt á reikninginn eða fá hjá henni „tax free“-eyðublað.
Því næst getur þú látið tollayfirvöld á Grænlandi stimpla á reikninginn eða eyðublaðið og fengið upphæðina endurgreidda.
Skráning í þjóðskrá
Ríkisborgurum norrænna landa er einungis skylt að tilkynna um flutning til Grænlands ef þeir ætla að dvelja þar lengur en sex mánuði. Hyggist þú dvelja lengur en þrjá mánuði og ef þú ert með húsnæði eða fastan samastað á Grænlandi áttu þó rétt á því að skrá þig inn í landið og fá kennitölu.
Ef ráðgert er að dvelja lengur en sex mánuði á Grænlandi þarftu að tilkynna flutninginn til búsetusveitarfélagsins ekki síðar en fimm dögum frá komunni til Grænlands.
Þú skalt tilkynna flutninginn hjá borgaraþjónustunni Sullissivik. Þegar því er lokið færðu búsetuvottorð sem nota má sem persónuskilríki.
Ef þú flytur frá Danmörku og hefur danska kennitölu þarftu að skila inn flutningstilkynningu (flytteanmeldelse) í síðasta lagi fimm dögum eftir flutninginn til Grænlands. Sért þú með NemID (danskt rafrænt auðkenni) getur þú tilkynnt flutninginn rafrænt á Sullissivik, sem er vefgátt allra opinberra stofnana á Grænlandi. Þar er einnig hægt að fá búsetuvottorð (bopælsattest), eftir að flutningurinn til Grænlands hefur verið skráður.
Sért þú ekki með NemID þarftu að skila útfylltu flutningseyðublaði til þjónustumiðstöðvar á skrifstofu sveitarfélagsins eða byggðarlagsskrifstofu á staðnum sem þú fluttir til. Sértu ekki með danskt ríkisfang færðu kennitölu þegar þú skráir þig í þjóðskrá á Grænlandi
Það er ókeypis að tilkynna flutning og slík tilkynning getur einnig tekið til annarra af sama heimili sem flytja með þér, og sem uppfylla skilyrði vegna tilkynningar (maki, sambýlingur, börn og svo framvegis).
Tilkynna skal flutning í því sveitarfélagi sem flutt hefur verið til. Ef þú ert ekki norrænn ríkisborgari þarftu að hafa dvalarleyfi í samræmi við dönsku útlendingalöggjöfina (udlændingeloven) eða vera með gögn frá yfirvöldum sem sýna að þú þurfir ekki að fá dvalarleyfi. Danska útlendingastofnunin leiðbeinir um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir ríkisborgara þriðja lands, maka- og fjölskyldusameiningu og ótímabundið dvalarleyfi.
Húsnæði
Ýmis mismunandi búsetuform eru á Grænlandi en algengast er að búa í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Búseturéttarhúsnæði verður æ algengara en er þó ekki með algengustu búsetuformum. Öllum er frjálst að kaupa fasteignir á Grænlandi, en athugaðu að þú getur ekki keypt landið sem fasteignin stendur á.
Þú þarft að hafa samband við póstþjónustuna í því landi sem þú ert að flytja frá til að fá frekari upplýsingar um möguleikann á að láta áframsenda póstinn þinn á nýja heimilisfangið þitt á Grænlandi.
Ökuskírteini
Flytjir þú til Grænlands þarftu að hafa útvegað þér grænlenskt ökuskírteini innan sex mánaða. Hafir þú ökuskírteini frá Danmörku, öðru norrænu landi eða ESB-landi getur þú fengið grænlenskt ökuskírteini umsvifalaust á lögreglustöðinni í þinni heimabyggð.
Skattamál
Ef þú átt heima á Grænlandi eða dvelur þar í meira en sex mánuði ertu með fulla skattskyldu. Í því felst að þú átt að gefa upp og greiða skatt af öllum tekjum þínum – hvort sem þeirra er aflað á Grænlandi eða í öðru landi.
Ef þú dvelur á Grænlandi skemur en sex mánuði ertu með takmarkaða skattskyldu. Það þýðir að þú greiðir aðeins skatt vegna vinnu sem unnin er á Grænlandi.
Um leið og þú hefur tilkynnt flutninga til Grænlands skaltu hafa samband við Skattestyrelsen og fá útgefið skattkort. Hafir þú flutt frá Danmörku skaltu jafnframt sækja um undanþágu frá því að greiða skatt í Danmörku.
Almannatryggingar
Það skiptir máli í hvaða landi þú átt aðild að almannatryggingum upp á það hvaða reglur eiga við um lífeyri, atvinnuleysistryggingar, sjúkradagpeninga, fjölskyldubætur, fæðingarorlof og fleira.
Meginreglan er að einstaklingur á aðild að almannatryggingum í því landi sem hann starfar. Þau sem ekki eru með atvinnu eiga yfirleitt aðild að almannatryggingum í því landi sem þau búa. Þó geta verið undantekningar frá því. Þú þarft því að hafa samband við yfirvöld í því landi sem þú býrð, vinnur eða stundar nám í ef þú ert í vafa.
Lífeyrisgreiðslur
Til að eiga rétt á grænlenskum ellilífeyri þarft þú að vera danskur ríkisborgari eða falla undir Norðurlandasamninginn um almannatryggingar (borgarar norrænna ríkja og ESB-/EES-landa), Til að fá grænlenskar ellilífeyrisgreiðslur þarftu að hafa náð 66 ára aldri.
Á Grænlandi er lögbundið að greiða í lífeyrissjóð og samkvæmt lögum þarf ákveðin lágmarksprósenta af launum þínum að fara í lífeyrissparnað. Árið 2021 eru þetta 7 prósent, en það hlutfall mun hækka um eitt prósent á ári fram til 2024 og þá verður lágmarkshlutfallið 10 prósent.
Ef þú greiðir í lífeyrissjóð í Danmörku og færð starf á Grænlandi getur þú beðið lífeyrissjóðinn þinn að skrá þig í leið sem nefnist §53A. Þannig forðast þú tvísköttun af þeim lífeyrissparnaði sem þú leggur fyrir við störf þín á Grænlandi. Hafðu samband við lífeyrissjóðinn þinn til að fá frekari upplýsingar.
Heilbrigðisþjónustu
Þegar þú hefur skráð þig í þjóðskrá á Grænlandi áttu rétt á þeirri heilbrigðisþjónustu sem borgurum landsins stendur til boða. Það á við um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og lyf sem ávísað er af læknum.
Gæludýr
Ýmsar takmarkanir gilda um innflutning gæludýra til Grænlands. Einkum gilda takmarkanir um innflutning á hundum, en hundahald er ekki leyfilegt á stórum hluta Grænlands.
Skólar og dagvistun barna
Á Grænlandi er tíu ára fræðsluskylda. Grænlenski grunnskólinn er ókeypis fyrir öll börn sem eru búsett á landinu. Bæði skólar og dagvistunarúrræði eru aðallega á vegum sveitarfélaganna. Hafðu því samband við það sveitarfélag sem þú flytur í.
Menntun
Á Grænlandi er menntun án endurgjalds, allt frá grunnskólastigi upp á háskólastig. Þú getur fengið inngöngu í grænlenskan menntaskóla ef þú hefur lokið grunnskóla í Danmörku eða öðru norrænu landi. Þú getur svo sótt um háskólanám á Grænlandi eftir að hafa lokið grænlensku stúdentsprófi (GUX) eða samsvarandi framhaldsskólanámi í öðru norrænu landi. Á Grænlandi er greint á milli þriggja menntaleiða á háskólastigi: stuttrar, meðallangrar og langrar æðri menntunar.
Ef þú ert ríkisborgari Danmerkur eða annars norræns lands getur þú stundað nám á Grænlandi til jafns við grænlenska námsmenn. Í því felst að þú getur sótt um inngöngu í nám hjá grænlenskum menntastofnunum.
Ákveðin skilyrði gilda fyrir veitingu námsstyrks á Grænlandi. Viðkomandi á að vera:
- Danskur ríkisborgari
- Búsett/ur á Grænlandi
- Skráð/ur í háskólanám og virk/t/ur í námi
Danskir og færeyskir námsmenn uppfylla kröfurnar ef þeir eru búsettir á Grænlandi og virkir í námi. Uppfylli viðkomandi ekki kröfurnar er mögulegt að sækja um undanþágu, ef hægt er að sýna fram á sérstaka tengingu við Grænland.
Í flestum tilfellum er í staðinn hægt að fá námsstyrk frá eigin heimalandi.
Kosningaréttur
Til að hafa atkvæðarétt í kosningum til Inatsisartut (grænlenska landsþingsins) og danska þingsins þarft þú að:
- Vera orðið/n/n 18 ára
- Vera danskur ríkisborgari
- Hafa haft fasta búsetu á Grænlandi í að minnsta kosti sex mánuði fyrir kosningarnar
Hægt er að fá atkvæðarétt í sveitarstjórnarkosningum án þess að vera danskur ríkisborgari ef maður hefur haft fasta búsetu í ríkjasambandinu (Grænlandi, Færeyjum eða Danmörku) í a.m.k. þrjú ár fyrir kosningarnar.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.