Leiðbeiningar: flutt frá Svíþjóð

Tjekliste når du flytter fra Sverige
Hér má finna leiðbeiningar um það sem hafa þarf í huga til að allt gangi vel fyrir sig þegar flutt er frá Svíþjóð. Notaðu leiðbeiningarnar sem gátlista við undirbúning flutnings frá Svíþjóð. Mismunandi reglur gilda um skráningu lögheimilis, almannatryggingar, skatta og tryggingar eftir því hvort flutt er tímabundið eða varanlega frá Svíþjóð.

Það er ávallt að mörgu að huga við flutning, en þegar flutt er milli landa er að enn fleiru að huga. Ef til vill þarftu að huga að þörfum annarra þegar þú flytur frá Svíþjóð, til dæmis barna eða gæludýra. Kannski ertu að flytja frá Svíþjóð vegna náms eða vinnu, eða ert á eftirlaunum og vilt njóta lífsins nær þínum námkomnustu í öðru norrænu landi.

Þegar þú flytur frá Svíþjóð þarftu ekki aðeins að kynna þér stofnanapláss, almenningssamgöngur og verslanir í nýja landinu. Huga þarf að mörgum öðrum hagnýtum atriðum þegar flutt er til annars lands og því höfum við útbúið leiðbeiningar með upplýsingum og góðum ráðum sem vonandi gera flutninginn örlítið auðveldari.

Mundu að athuga alltaf hvaða reglur gilda í landinu sem þú flytur til. Og mundu að þú þarft alltaf að tilkynna flutning úr landi til sænskra skattyfirvalda og almannatrygginga, sem og lífeyrisstofnunar ef þú ert lífeyrisþegi.

Dvalarleyfi

Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi í öðrum norrænum löndum.

Ríkisborgarar ESB-ríkja eiga einnig rétt á að stunda nám, starfa eða búa í Svíþjóð án þess að þurfa að sækja um dvalarleyfi. Ef þú getur ekki séð fyrir þér þarftu þó að sækja um dvalarleyfi til þess að fá rétt til að dvelja í landinu sem þú flytur til.

Ríkisborgarar landa utan ESB/EES þurfa að sækja um dvalarleyfi til þess að fá leyfi til að búa í landinu sem flutt er til. Ef þú hefur dvalarleyfi í norrænu landi gildir það ekki í öðrum norrænum löndum. Þess vegna skaltu hafa samband við útlendingastofnun viðkomandi lands og kynna þér reglur sem gilda um atvinnu- eða dvalarleyfi. Hafðu auk þess samband við Migrationsverket í Svíþjóð til að fá upplýsingar um hvort þú eigir hættu á að missa atvinnu- eða dvalarleyfi þitt í Svíþjóð ef þú flytur frá Svíþjóð eða byrjar að vinna í öðru landi.

Skráning í þjóðskrá

Ef þú flytur frá Svíþjóð í meira en eitt ár skaltu hafa samband við bæði Skatteverket og Försäkringskassan til að skrá flutninginn til útlanda.

Ef þú flytur til Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Færeyja, Grænlands eða Álandseyja segja reglur viðkomandi lands til um hvort þú þurfir að skrá þig sem innflytjanda. Í flestum landanna er skráning nauðsynleg ef dvalið er lengur í landinu en í sex mánuði.

Þú þarft að hafa með þér persónuskilríki, þar á meðal vottorð um ríkisfang (vegabréf eða nafnskírteini) og gefa þjóðskrá í nýju heimalandi þínu upp kennitölu og gamla heimilisfangið í Svíþjóð.

Einnig skal tilkynna um flutning til skattyfirvalda í Svíþjóð í síðasta lagi viku fyrir brottför. Viðkomandi er ekki tekinn af þjóðskrá í Svíþjóð fyrr en skráningaryfirvöld í hinu norræna landinu ákveður hvort hann skuli vera skráður í þjóðskrá þar.

Ef þú ætlar að dvelja skemur en eitt ár í hinu landinu getur þú áfram haft lögheimili þitt í Svíþjóð. Hafðu samband við Skatteverket til að fá upplýsingar um þetta.

Þegar þú flytur frá einu norrænu landi til annars gildir samningur Norðurlandanna um almannaskráningu. Samningurinn felur í sér að þú getur aðeins átt eitt lögheimili á Norðurlöndum.

Flutt með börn

Mikilvægt er að tilkynna einnig um flutning barna sem flytja frá Svíþjóð. Þegar fjölskylda flytur frá Svíþjóð þarf einn af foreldrum eða forráðamönnum barns að tilkynna um flutning allrar fjölskyldunnar hjá Skatteverket. Ef barn flytur frá Svíþjóð með aðeins öðru foreldri eða forráðamanni þurfa bæði þeirra að undirrita flutningstilkynningu barnsins.

Skráning heimilisfangs

Skatteverket í Svíþjóð skráir nýja heimilisfangið sem er tilkynnt og kemur því til skila til annarra sænskra stofnana, sveitarfélaga, landshlutastjórna og SPAR (sænsku þjóðskráarinnar). SPAR sendir upplýsingarnar áfram til viðskiptavina sinna, svo sem banka, tryggingafélaga og fyrirtækja.

Þremur árum eftir flutning frá Svíþjóð eyðir SPAR upplýsingum um þig. Heimilisfang þitt verður þó áfram aðgengilegt stofnunum, sveitarfélögum og landshlutastjórnum. Mundu að tilkynna Skatteverket ef heimilisfang þitt í útlöndum breytist. Ef þú flytur aftur innan nýja landsins þarftu sjálf/ur að láta fyrirtæki og stofnanir vita af nýja heimilisfanginu ef þú vilt að þau hafi upplýsingar um það.

Póstur

Mikilvægt er að muna að láta áframsenda póst á nýtt heimilisfang í öðru landi eða til ættingja í Svíþjóð og tilkynna nýtt heimilisfang til banka og annarra stofnana.

Skattar

Það hvort þér beri að greiða skatt í Svíþjóð eða ekki ræðst af því hvar Skatteverket telur þig hafa skattalega heimilisfesti. Skattaleg heimilisfesti er landið sem þú býrð í, greiðir skatt í og gefur upp tekjur í.

Skatteverket mun meta hvort þú berir ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu í Svíþjóð við brottflutning þinn.

Ef þú flytur úr landi en heldur áfram að starfa hjá sænskum vinnuveitanda eða færð lífeyrisgreiðslur frá Svíþjóð þarftu að greiða skatt af þessum tekjum í Svíþjóð.

Almannatryggingar

Þegar flutt er tímabundið eða varanlega frá Svíþjóð þarf að tilkynna Försäkringskassan um það til að stofnunin geti ákvarðað um hvort þú skulir áfram vera aðili að almannatryggingum í Svíþjóð.

Ef þú flytur til annars lands til að hafa þar fasta búsetu þarftu að öllum líkindum ekki lengur að eiga aðild að almannatryggingum í Svíþjóð, en það fer því eftir því til hvaða lands þú flytur og hversu lengi þú munt búa þar.

Hjá Försäkringskassan er að finna mismunandi eyðublöð sem þarf að fylla út, allt eftir því hvort þú munir starfa eða stunda nám í útlöndum eða flytja þangað sem barn, lífeyrisþegi eða maki.

Försäkringskassan tekur mið af þeim upplýsingum sem þú gefur upp til að ákvarða hvort þú skulir áfram eiga aðild að almannatryggingum í Svíþjóð eða í nýja landinu.

Ef almannatryggingar þínar í Svíþjóð renna út áttu ekki lengur rétt á almannatryggingum í Svíþjóð þegar þú ferð þangað í fríum.

Meðganga

Ef kona er þunguð skal hún kynna sér vel reglur um fæðingarorlof áður en hún flytur. Því skal hafa samband við Försekringskassan (sænsku tryggingastofnunina) til að fá upplýsingar um hvaða reglur gilda fyrir viðkomandi og hvort hægt er að flytja fæðingarorlofsrétt með sér úr landi.

Ólæknandi sjúkdómur

Einstaklingar með ólæknandi sjúkdóm skulu hafa samband við lækni sinn og fá lyfseðla vegna nauðsynlegra lyfja til þess að nota fyrstu vikurnar í nýju landi.

Lífeyrisgreiðslur

Ef þú ert lífeyrisþegi og flytur úr landi þarftu að tilkynna Skatteverket, Försäkringskassan og Pensionsmyndigheten um flutninginn. Þessar stofnanir geta upplýst þig um að hverju þarf að huga þegar lífeyrisþegar flytja frá Svíþjóð.

Ef þú hefur starfað og greitt skatt í Svíþjóð heldur þú rétti þínum til tekjutengds lífeyris þrátt fyrir að þú flytjir úr landi.

Tollur

Þú þarft að hafa í huga hvaða tollareglur gilda fyrir Ísland og Noreg ef þú flytur til þessara landa með húsgögnum og annarri búslóð, þar sem þau eru ekki í Evrópusambandinu.

Gæludýr

Flestir taka hund sinn eða kött með þegar þeir flytja til útlanda. Fara þarf að ýmsum reglum sem gilda um flutning gæludýra innan Norðurlandanna. Kannaðu alltaf hvaða reglur gilda um innflutning dýra í landinu sem þú flytur til.

Fyrir öll gæludýr þarf dýravegabréf sem kaupa má hjá dýralækni. Hundurinn eða kötturinn þarf einnig að hafa verið bólusettur gegn hundaæði hafa bólusetninguna skráða í dýravegabréfinu. Auk þess skal hundurinn eða kötturinn að hafa örflögumerkingu.

Flutningafyrirtæki

Ýmis flutningafyrirtæki geta aðstoðað við umsýslu við flutning til útlanda og allt er viðkemur útflutningi, innflutningi og tollareglum ef flutt er til lands utan ESB.

Ef landið sem flutt er til er innan ESB er hægt að lækka flutningskostnaðinn með RUT-frádrætti („rotarbete och rutarbete“). Ef þú ræður fyrirtæki til að vinna „rut-arbejde“ geturðu fengið skattafrádrátt fyrir hluta af vinnukostnaðinum. Aðeins vinnukostnaðurinn gefur rétt til þessa frádráttar og fyrirtækið getur að hámarki dregið 50% af vinnukostnaðinum frá reikningnum.

Uppsögn á leigusamningi

Leigjendur þurfa að segja upp leigusamningi sínum skriflega. Upplýsingar um uppsagnarfrest er að finna í leigusamningi.

Munið að leigjandi ber ábyrgð á íbúðinni á meðan á leigutíma stendur. Ef flutt er áður en leigutími rennur út, skal sjá til þess að leigusamningur verði ógiltur.

Afhending á íbúð

Hvort sem flutt er úr er leiguíbúð eða búseturéttaríbúð (bostadsrett) skulu sá sem flytur og eigandi/leigusali koma sér saman um afhendingu lykla, annars búnaðar og hugsanlegar notkunarleiðbeiningar.

Skólar og leikskólar

Ef þú flytur úr landi með barn þarftu að finna skóla eða leikskóla á nýja staðnum og skrá barnið þitt þar.

Starfsleyfi

Kanna skal hvort nauðsynlegt er að sækja um starfsleyfi eða önnur leyfi í þeim geira sem viðkomandi hyggst starfa í nýja landinu. Umsóknarferlið getur tekið langan tíma svo gott er að sækja um með góðum fyrirvara.

Stéttarfélag

Ef þú ert aðili að stéttarfélagi í Svíþjóð er góð hugmynd að hafa samband við skrifstofu þess áður en flutt er til annars norræns ríkis. Þar er hægt að fá gagnlegar upplýsingar og leiðbeiningar um hvaða stéttarfélag viðkomandi skal vera aðili að.

Atvinnuleysistryggingasjóðir og dagpeningar

Þegar fólk hyggst flytja frá Svíþjóð til annars norræns ríkis getur það flutt áunninn dagpeningarétt með sér.

Ef einstaklingur hefur verið skráður í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð getur hann yfirfært trygginga- og starfstímabil sín frá Svíþjóð til atvinnuleysistryggingasjóðs í öðru norrænu ríki.

Það tímabil sem hann hefur verið tryggður í sænskum atvinnuleysistryggingasjóði verður því reiknað með þegar metinn er réttur til dagpeninga í öðru norrænu ríki. Vilji einstaklingur fá trygginga- og starfstímabil metið til réttinda til atvinnuleysisbóta í Noregi eða á Íslandi, verður hann að hafa vottorð til staðfestingar. Atvinnuleysistryggingasjóður gefur út vottorðið sem kallast PD U1. Nánari upplýsingar veitir atvinnuleysistryggingasjóðurinn (A-kassen).

Bíll

Ef þú velur að flytja bílinn þinn með þér þegar þú flytur frá Svíþjóð þarftu að skrá hann í landinu sem þú flytur til. Hafðu samband við samgönguyfirvöld og tollyfirvöld í nýja landinu til að fá upplýsingar um innflutning bifreiða.

Banki

Þegar flutt er frá Svíþjóð er ráðlegt að hafa samband við bankann til þess að loka reikningum, breyta heimilisfangi á reikningum eða greiða upp lán.

Einnig getur komið sér vel að hafa meðferðis bréf eða nokkurs konar meðmæli frá bankanum til þess að framvísa þegar bankaviðskipti hefjast í nýju landi.

Fjármál

Þegar einstaklingur flytur frá einu landi til annars ber honum að tryggja að hann geti séð fyrir sér fyrstu vikur eða mánuði. Hafa ber í huga að oft þarf að greiða tryggingu vegna leiguíbúðar annars staðar á Norðurlöndum og að nokkurn tíma getur tekið að afgreiða umsóknir til dæmis um húsaleigu- eða barnabætur.

Ef viðkomandi fær greiðslur frá almannatryggingakerfinu skal hann hafa samband við Försäkringskassan áður en flutt er.

Einkatryggingar

Það getur verið góð hugmynd að fara í gegnum persónulegar tryggingar í tengslum við flutning milli landa. Hafi einstaklingur selt íbúð skal hann sjá til þess að hún sé tryggð þar til afhending fer fram. Tryggingafélög veita nánari upplýsingar um þetta.

Auk þess skal hafa samband við tryggingafélag og fá upplýsingar um hvaða reglur gilda um flutning úr landi og uppsagnarfrest.

Ríkisborgararéttur

Einstaklingar missa ekki sænskan ríkisborgararétt þótt þeir flytji úr landi og séu ekki lengur skráðir í þjóðskrá í Svíþjóð. Þeir missa ekki heldur sænska kennitölu sína.

Kosningaréttur

Einstaklingar halda kosningarétti sínum í þingkosningum og ESB-kosningum í Svíþjóð þrátt fyrir að flytja annars norræns lands.

Sænskur ríkisborgari sem hefur náð 18 ára aldri í síðasta lagi á kjördag, er sjálfkrafa á kjörskrá. Viðkomandi er á kjörskrá í tíu ár frá því hann flytur úr landi.

Nýtt tíu ára tímabil hefst ef hann tilkynnir að hann vilji áfram vera á kjörskrá eða tilkynnir nýtt heimilisfang erlendis.

Einstaklingur sem flytur sig um set erlendis skal tilkynna flutninginn til Skatteverket.

Áskriftir

Farið yfir allar áskriftir og segið þeim upp eða flytjið á nýtt heimilisfang. Munið að segja upp áskrift að rafmagni svo ekki þurfi að greiða fyrir rafmagnsnotkun annarra. Ekki má heldur gleyma að segja upp öðrum áskriftum eins og að síma, breiðbandi, líkamsrækt og dagblöðum.

Mikilvæg skjöl

Hafa skal meðferðis vottorð og skjöl frá skólum barna og öðrum menntastofnunum, fæðingarvottorð, bólusetningarskrá, meðmæli, prófskírteini og giftingarvottorð þegar flutt er til nýs lands.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna