Skattur á Grænlandi

Skattestyrelsens lokaler i Nuuk
Ljósmyndari
Maasi Brøns Chemnitz
Grænlenska tekjuskattkerfið er staðgreiðslukerfi þar sem atvinnurekandinn heldur eftir hluta tekna þinna til þess að greiða skattinn. Hér er að finna upplýsingar um skattareglur á Grænlandi.

Þú getur borið skattskyldu að fullu eða að hluta á Grænlandi, eftir því hversu lengi þú dvelur í landinu.

Full skattskylda

Ef þú átt heima á Grænlandi eða dvelur þar í meira en sex mánuði eða 183 daga berðu þar fulla skattskyldu. Í því felst að þú átt að gefa upp og greiða skatt af öllum tekjum þínum – hvort sem þeirra er aflað á Grænlandi eða í öðru landi.

Þegar þú ert með fulla skattskyldu færðu álagningarseðil frá skattinum, Skattestyrelsen, árlega með útreikningi á því hvort þú skuldar eða átt inni skatt.

Takmörkuð skattskylda

Ef þú dvelur á Grænlandi skemur en sex mánuði berðu þar takmarkaða skattskyldu. Það þýðir að þú greiðir aðeins skatt af tekjum sem aflað er á Grænlandi.

Þegar þú ert með takmarkaða skattskyldu færðu ekki álagningarseðil með útreikningi á því hvort þú skuldar eða átt inni skatt.

A- og B-skattur

A- og B-skattur eru algengustu skattaformin og er slíkur skattur greiddur af A- og B-tekjum.

Sé um A-skatt að ræða er skatturinn sjálfkrafa dreginn af tekjum þínum.

Sé um B-skatt að ræða þarft þú að halda utan um skattinn og greiða hann.


A-skattur er skattur sem greiddur er fyrir fram og byggður er á áætlun um tekjur þínar á næsta skattaári. 
Tekjur sem falla undir A-tekjur eru til dæmis:

 • Laun frá vinnuveitanda
 • Laun sem sjálfstætt starfandi verktaki
 • Lífeyrisgreiðslur
 • Laun vegna stjórnarsetu

A-skatturinn er reiknaður út frá skattkortinu þínu og vinnuveitandinn sér um að draga hann af. Þegar skattaárið er liðið vita skattayfirvöld nákvæmlega hve miklar A-tekjur þú hafðir og aðlaga skattinn að þeim tekjum sem þú hafðir í raun. Ef þú hefur greitt of lítið í skatt yfir árið færðu reikning fyrir því sem þú skuldar. Það nefnist skattaskuld. Hafirðu á hinn bóginn greitt of mikið nefnist það ofgreiddur skattur. Skattestyrelsen greiðir sjálfkrafa út ofgreiddan skatt. Ef þú skuldar hinu opinbera dregst skuldin frá upphæðinni áður en hún er greidd út og eftir það berst þér skuldajöfnunarbréf.


B-skattur er í raun einnig fyrirframgreiddur skattur en það er í þínum höndum að halda utan um hve mikið þú átt að greiða. Þú þarft einnig að sjá um að greiða skattinn. 
Tekjur sem falla undir B-tekjur eru til dæmis:

 • Tekjur vegna sjálfstæðs reksturs
 • Námsstyrkur
 • Vextir
 • Tekjur af afurðum af veiðum og afla

Til að greiða B-skattinn færðu sendan reikning tíu sinnum á ári á grundvelli skattaskýrslunnar. Að öðru leyti gilda sömu reglur um skattaskuld og ofgreiddan skatt.

 

Fyrirframskráning og skattkort

Fyrirframskráning á yfirleitt bara við um borgara með fulla skattskyldu á Grænlandi. Til að fyrirframskrá þig og fá afhent skattkort skaltu leita til skrifstofu skattsins í þinni heimabyggð eða finna það á Sullissivik (borgaraþjónusta á netinu).

Skattkortið er reiknað út miðað við fyrirframskráninguna, persónufrádrátt og skatthlutfallið í sveitarfélaginu þínu.

 

Framtal og álagningarseðill

Skattestyrelsen fyllir út framtalið þitt út frá tekjuupplýsingum frá vinnuveitanda þínum. Ef þú þarft að breyta eða bæta við framtalið geturðu leiðrétt það rafrænt í gegnum Sullissivik. Ef þú þarft ekki að breyta eða bæta við þarftu ekki að aðhafast neitt.

Senda þarf framtalið til skattsins í síðasta lagi 1. maí árið eftir tekjuárið.

Þegar skattaárið er liðið færðu sendan álagningarseðil sem sýnir hvort þú skuldar skatt eða átt að fá skatt endurgreiddan. Þú færð álagningarseðilinn sendan í lok ágúst árið eftir tekjuárið. Á álagningarseðlinum er að finna leiðbeiningar um hvernig þú greiðir skattaskuld. Ofgreiddur skattur greiðist sjálfkrafa út.

Tvísköttunarsamningar eru samningar sem gerðir eru á milli tveggja eða fleiri landa. Tvísköttunarsamningar tryggja að þú borgir aðeins tekjuskatt í því landi sem þú starfar. Ef þú ert frá landi sem er með tvísköttunarsamning við Grænland sleppurðu því við að greiða skatt í heimalandi þínu á meðan þú starfar á Grænlandi.

Af norrænu löndunum hefur Grænland gert tvísköttunarsamninga við:

 • Danmörku
 • Færeyjar
 • Ísland
 • Noreg

Þú getur fengið nánari upplýsingar um einstaka tvísköttunarsamninga á Norrænu skattagáttinni (Nordisk eTax) eða með því að snúa þér til skattayfirvalda í því landi sem þú átt heima til þess að fræðast nánar um reglur varðandi tvísköttunarsamninga vegna vinnu á Grænlandi.

Skattareglur varðandi Svíþjóð eða Finnland

Grænland hefur ekki gert tvísköttunarsamninga við Svíþjóð og Finnland. Það þýðir að skattayfirvöld þeirra landa geta innheimt skatt vegna vinnu sem unnin er á Grænlandi til viðbótar við þann skatt sem greiddur er á Grænlandi. Það nefnist tvísköttun því greiddur er skattur af sömu tekjum tvisvar.

Ef þú átt heima í Svíþjóð eða Finnlandi og ert áfram í starfi og á launum hjá sama atvinnurekanda sem er ekki með heimili eða fastan starfsstað á Grænlandi eiga eftirfarandi reglur við:

Ef dvölin nemur minna en 14 dögum berðu ekki skattskyldu á Grænlandi. Þá áttu aðeins að greiða skatt af tekjum þínum í því landi sem þú starfar.

Ef dvölin er lengri en 14 dagar berðu einnig skattskyldu á Grænlandi. Þá áttu að greiða skatt af launum þínum bæði á Grænlandi og í því landi þar sem þú starfar.

Snúðu þér til þeirra skattayfirvalda sem við eiga til að fá nánari upplýsingar um þær skattareglur sem eiga við.

Nordisk eTax

Norræna skattagáttin (Nordisk eTax) er samstarf milli skattayfirvalda í norrænu ríkjunum. Hér má finna upplýsingar um skattareglur, tvísköttunarsamninga og fleira. Einnig má nálgast tengiliðaupplýsingar skattayfirvalda í öllum norrænu löndunum.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna