Leiðbeiningar: flutt frá Noregi

Flytte fra Norge til et annet nordisk land
Hvað þarf að hafa í huga í tengslum við flutning frá Noregi til Íslands, Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Svíþjóðar eða Álandseyja? Hér getur þú lesið þér til um skráningu í þjóðskrá, skatta, félagsleg réttindi og annað sem hafa þarf í huga þegar flutt er til annars lands.

Skráning í þjóðskrá við flutning

Þegar þú flytur frá Noregi til annars norræns lands eru það reglur nýja landsins sem skera úr um þú verðir skráð(ur) sem innflytjandi í landinu. Þú þarft að tilkynna um flutninginn í landinu sem þú flytur til. Ef tilkynning um flutning er samþykkt í landinu sem þú flytur til verður flutningur þinn frá Noregi skráður sjálfkrafa.

Félagsleg réttindi

Þegar þú flytur frá Noregi gengur aðild þín að norska almannatryggingakerfinu að öllu jöfnu úr gildi og þú nýtur ekki lengur réttinda samkvæmt norsku almannatryggingalöggjöfinni.

Ef þú hefur áunnið þér félagsleg réttindi í Noregi þegar þú flytur til annars norræns lands geturðu yfirleitt tekið þessi réttindi með þér. Í sumum tilvikum felur það í sér að þú getur lagt þessi réttindi saman við réttindi sem þú ávinnur þér í landinu sem þú flytur til. Hafðu hins vegar hugfast að þú getur ekki tekið með þér áunnin bótaréttindi ef slík réttindi eru ekki til í landinu sem þú flytur til.

Í öðrum tilvikum geturðu fengið bætur greiddar frá Noregi þrátt fyrir að þú flytjir til annars lands. Í langflestum tilvikum þarftu að sækja um að fá bætur greiddar frá Noregi áður en þú flytur úr landi.

NAV (vinnumála- og tryggingastofnunin) getur veitt þér svör við spurningum um aðild að almannatryggingakerfinu og félagsleg réttindi frá Noregi.

Réttur til heilbrigðisþjónustu við flutning

Þegar þú flytur til annars norræns lands og skráir búsetu þína þar er meginreglan að þú njótir heilbrigðis- og læknisþjónustu þar í landi. Leitaðu til heimilislæknis ef þú ert með ólæknandi sjúkdóm til að fá lyfseðil fyrir nauðsynleg lyf fyrir fyrstu vikurnar í nýja landinu.

Ef þú dvelur tímabundið í öðru landi getur þú í vissum tilfellum haldið réttindum þínum í norska heilbrigðiskerfinu. Áður en þú flytur til annars lands þarftu að athuga hvaða reglur gilda um þínar aðstæður hjá HelseNorge.

Ertu að flytja úr landi og átt von á barni?

Ef þú átt von á barni er mikilvægt að þú kynnir þér reglur um fæðingarorlof og fæðingarorlofsgreiðslur áður en þú flytur úr landi. Fáðu upplýsingar hjá NAV um hvað eigi við um þínar aðstæður og kannaðu hvort þú getir tekið áunninn rétt þinn til fæðingarorlofsgreiðslna með þér úr landi.

Skattar þegar flutt er frá Noregi

Þegar þú flytur til annars lands þarftu að tilkynna skattyfirvöldum um það (Skatteetaten). Þrátt fyrir að þú flytjir frá Noregi ertu enn sem áður skattskyld(ur) að fullu í Noregi. Það á við ef þú hefur átt heima í Noregi og hefur mikil tengsl við landið.

Vinna, atvinnuleit og atvinnuleysisbætur við flutning

Þegar þú flytur til annars lands vegna atvinnu þarftu að athuga hvort þú þurfir að sækja um viðurkenningu, löggildingu eða leyfi af öðru tagi innan þinnar starfsgreinar í nýja landinu. Atvinnuleit getur tekið langan tíma og því borgar sig að byrja í tæka tíð.

Ef þú ert í stéttarfélagi í Noregi er ráð að hafa samband við það áður en þú flytur til annars lands. Þar geturðu fengið gagnlegar upplýsingar og kynnt þér hvaða stéttarfélag þú getur skráð þig í við komuna til nýja landsins.

Þú getur yfirleitt flutt áunninn rétt á atvinnuleysisbótum með þér til annarra Norðurlanda. Berðu það undir NAV.

Fjármál við flutning

Þegar þú flytur á milli landa þarftu að tryggja að þú getir séð þér farborða fyrstu vikurnar eða mánuðina. Þú þarft að gera ráð fyrir því að oft þarf að greiða fyrirfram inn á leiguhúsnæði og eins getur tekið tíma að afgreiða umsóknir um til að mynda húsaleigustyrk eða barnabætur.

Ef þú færð opinbera aðstoð eða bætur skaltu hafa samband við NAV áður en þú flytur.

Mundu eftir að segja upp áskriftum að rafmagni, síma, nettengingu, líkamsrækt, dagblöðum og tímaritum.

Póst- og bankaþjónusta

Þegar þú flytur frá Noregi er ráðlegt að hafa samband við bankann til þess að loka reikningum, breyta heimilisfangi á reikningum eða greiða upp lán.

Mundu að láta áframsenda póstinn þinn til útlanda eða til ættingja þinna. Þú getur tilkynnt um breytt heimilisfang hjá Posten. Mundu líka að breyta heimilisfanginu hjá bönkum og öðrum stofnunum sem þú átt samskipti við.

Húsnæði og leigusamningar

Ef þú býrð í leiguhúsnæði þarftu að segja leigusamningnum upp skriflega áður en þú flytur. Að öðrum kosti áttu á hættu að þurfa að borga húsaleigu á tveimur stöðum.

Ef þú átt húsnæði í Noregi sem verður leigt út á meðan þú býrð erlendis þarftu að kynna þér skattareglur hjá Skatteetaten.

Ef þú ætlar að selja húsnæði þitt í Noregi verður húsnæðið að vera tryggt allt fram á þann dag sem nýr eigandi tekur við því. Nánari upplýsingar færðu hjá tryggingafélaginu þínu.

Tollareglur þegar flutt er til útlanda

Kynntu þér hvaða tollareglur gilda í landinu sem þú flytur til ef þú ætlar að taka með þér dýr, innanstokksmuni eða aðra búslóð.

Bifreiðagjöld og útflutningur ökutækja

Ef ökutækið þitt er skráð í Noregi berð þú ábyrgð á að greiða ársgjöldin af því í Noregi. Skattstjóri hefur umsjón með ársgjöldum af bifreiðum í Noregi.

Ef þú ætlar að flytja ökutæki með þér til nýja landsins þarftu að kynna þér reglur um skráningu og innflutning ökutækja til landsins. Þú getur fengið hluta skráningargjalda endurgreidd þegar þú flytur ökutæki frá Noregi.

Hvað verður um ríkisborgararétt við flutning?

Ef þú ert norskur ríkisborgari heldur þú norsku ríkisfangi þínu þrátt fyrir að þú flytjir úr landi og eigir ekki lengur lögheimili í Noregi.

Kosningaréttur í Noregi og í landinu sem flutt er til

Ef þú ert norskur ríkisborgari, 18 ára eða eldri og hefur einhvern tíma búið í Noregi máttu kjósa í Noregi þrátt fyrir að þú hafir flutt úr landi. Kjósendur sem búa eða dveljast tímabundið erlendis geta kosið utan kjörstaðar annað hvort í Noregi eða á norskum sendiskrifstofum erlendis.

Norskir ríkisborgarar geta einnig kosið til sveitarstjórna, fylkisstjórna og landshlutastjórna í hinum Norðurlöndunum.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna