Leiðbeiningar: Flutt frá Danmörku
Tilkynntu flutning hjá þjóðskrá
Áður en þú flytur úr landi þarftu að tilkynna flutninginn á skráningarskrifstofu (folkeregisteret) í því sveitarfélagi þar sem þú býrð. Allir sem flytja úr landi eiga að vera skráðir brottfluttir í þjóðskrá.
Þú þarft að tilkynna flutninginn til þjóðskrár eigi síðar en fimm dögum eftir flutninginn. Ef þú tilkynnir ekki flutninginn geturðu fengið sekt.
Skemmri dvöl en sex mánuðir
Ef þú dvelst skemur en í sex mánuði erlendis geturðu sótt um hjá þjóðskrá að halda lögheimili þínu í Danmörku.
Krafan er yfirleitt sú að þú hafir heimili þitt í Danmörku til umráða á öllu tímabilinu. Það hefurðu ekki ef þú hefur framleigt það, lánað eða leigt út.
Ef þú hefur ekki fullan aðgang að heimili þínu getur sveitarfélagið metið hvort þú getir haldið heimilisfanginu og lögheimili þínu í Danmörku.
Heima um helgar og í fríum
Ef þú dvelur lengur en sex mánuði erlendis vegna starfa þinna en ert á heimili þínu í Danmörku flestar helgar, frídaga og í leyfum, áttu einnig rétt á að halda lögheimilinu í Danmörku.
Sama á við um maka þinn og börn ef þau eru með þér í útlöndum.
Flutningar til annars norræns lands
Þegar þú flytur frá Danmörku til Finnlands, Færeyja, Íslands, Noregs eða Svíþjóðar þarftu að tilkynna flutninginn á skráningarskrifstofu í sveitarfélaginu þínu.
Þú þarft einnig að tilkynninga flutninginn í hinu norræna landinu á skráningarskrifstofu sveitarfélagsins áður en frestur til að tilkynna flutninginn í landinu rennur út.
Þú þarft að hafa með þér persónuskilríki, þar á meðal vottorð um ríkisfang (vegabréf) og gefa upp kennitölu og gamla heimilisfangið í Danmörku.
Skráningarskrifstofan í danska sveitarfélaginu sem þú fluttir úr getur ekki skráð ykkur brottflutt úr landi fyrr en henni hefur borist tilkynning um nýtt lögheimili ykkar frá skráningarskrifstofunni í nýja sveitarfélaginu.
Þegar þú flytur frá einu norrænu landi til annars gildir samningur Norðurlandanna um almannaskráningu. Samningurinn felur í sér að þú getur aðeins átt eitt lögheimili á Norðurlöndum.
Tilkynntu flutninginn til póstþjónustunnar
Ef þú flytur úr landi geturðu beðið Postnord um að áframsenda póstinn þinn á nýja heimilisfangið í sex mánuði. Postnord áfram sendir ekki dagblöð, tímarit og böggla til útlanda.
Skattur
Þú þarft að upplýsa skattyfirvöld um flutning þinn úr landi. Nánari upplýsingar eru á vef skattayfirvalda (SKAT).
Almannatryggingar og sjúkratryggingar
Ef þú flytur til útlanda vegna starfa þinna og ert ekki lengur með heimilisfang í Danmörku ertu heldur ekki í danskri þjóðskrá.
Samtímis fellur niður aðild þín að dönsku almannatryggingakerfi og þú þarft að skila sjúkratryggingaskírteininu þínu á skrifstofu sveitarfélagsins. Almannatryggingar gilda heldur ekki þegar þú dvelur í Danmörku í fríum.
Danmörk hefur gert samning um almannatryggingar við hin Norðurlöndin, EES-löndin og nokkur önnur lönd.
Atvinnuleysistryggingasjóðir og dagpeningar
Ef þú flytur frá Danmörku til annars norræns lands geturðu tekið með þér áunninn bótarétt.
Ef þú ert í dönskum atvinnuleysistryggingasjóði geturðu fært áunnin trygginga- og starfstímabil frá Danmörku yfir í atvinnuleysistryggingasjóð í hinu norræna landinu.
Tryggingatímabil þitt í dönskum atvinnuleysistryggingasjóði er tekið með við mat á rétti þínum til bóta í hinu norræna landinu.
Óskir þú eftir því að trygginga- og starfstímabil þitt verði tekið með í atvinnuleysistryggingasjóð í öðru EES-landi þarftu að hafa vottorð sem staðfestir það. Atvinnuleysistryggingasjóður gefur út vottorðið sem kallast PD U1. Þú fyllir út eyðublaðið EØS 4 þegar þú sækir um vottorðið.
Bílar
Ef þú átt bíl þegar þú flytur úr landi geturðu oft fengið hluta danska skráningargjaldsins endurgreiddan. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu SKAT.
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.