Ellilífeyrir á Grænlandi

People in Nuuk
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er að finna upplýsingar um reglur sem gilda um ellilífeyri á Grænlandi.

Á Grænlandi eru ýmsar tegundir lífeyris:

  • Lögbundinn lífeyrir, svo sem ellilífeyrir og örorkulífeyrir
  • Vinnumarkaðslífeyrir, sem fer eftir ráðningarkjörum í starfi
  • Lífeyrissparnaður einstaklinga, sem þú getur til dæmis komið þér upp til viðbótar við aðrar lífeyrissparnaðarleiðir eða ef þú stundar sjálfstæðan atvinnurekstur

Hér má lesa um grænlenska lífeyriskerfið:

Átt þú rétt á ellilífeyri á Grænlandi?

Til að eiga rétt á grænlenskum ellilífeyri þarft þú að vera danskur ríkisborgari eða falla undir Norðurlandasamninginn um almannatryggingar (borgarar norrænna ríkja og ESB-/EES-landa).

Ef þú sækir um ellilífeyri á grundvelli dansks ríkisborgararéttar þarftu að hafa haft fasta búsetu í ríkjasambandinu (Grænlandi, Færeyjum eða Danmörku) í a.m.k. þrjú ár frá 15 ára aldri fram að eftirlaunaldrinum. Árin þrjú þurfa ekki að hafa verið samfellt tímabil.

Ef þú sækir um ellilífeyri á grundvelli Norðurlandasamningsins um almannatryggingar þarftu að hafa búið og starfað innan ríkjasambandsins í a.m.k. þrjú ár, en þar af þarf eitt ár að hafa verið á Grænlandi. Auk þess þarftu á umsóknartímanum að búa í einu þeirra landa sem samningurinn nær til, þ.e. einhverju norrænu ríkjanna eða EES-landanna.

Hvenær er hægt að fá greiddan grænlenskan ellilífeyri?

Til að fá grænlenskar ellilífeyrisgreiðslur þarftu að hafa náð 66 ára aldri. Þú getur þó fengið ellilífeyri greiddan frá 65 ára aldri ef þú hefur tapað starfsþreki eftir að hafa unnið líkamlega eða andlega slítandi vinnu í að minnsta kosti 35 ár.

Þann 1. janúar 2021 hækkar eftirlaunaaldurinn í 67 ár. Þó er hægt að óska eftir því við yfirvöld sveitarfélags að lífeyrisaldur þinn hækki ekki í 67 ár fyrr en 1. janúar 2025, ef þú hefur tapað starfsþreki eftir að hafa unnið líkamlega eða andlega slítandi vinnu í að minnsta kosti 35 ár.

Hvernig er hægt að fá upplýsingar um þann lífeyrisrétt sem hefur áunnist á Grænlandi?

Búir þú á Grænlandi skaltu hafa samband við búsetusveitarfélag þitt til að fá upplýsingar um rétt þinn til ellilífeyris.

Ef þú átt heima í öðru norrænu landi skaltu hafa samband við yfirvöld í búsetulandinu.

 

Hvernig sækir þú um ellilífeyri?

Hafir þú fasta búsetu á Grænlandi skaltu sækja um ellilífeyri hjá þínu búsetusveitarfélagi. Það geturðu gert rafrænt með NemID-auðkenni þínu á vefsvæði borgaraþjónustunnar Sullissivik.

Til að sækja um ellilífeyri frá öðru norrænu landi, þó að þú búir á Grænlandi, skaltu hafa samband við grænlenska félagsmálaráðuneytið.

Skattlagning lífeyris

Þú þarft að greiða skatt af ellilífeyrisgreiðslum, rétt eins og þú greiddir áður skatt af launum þínum. Þú átt inni bæði persónuafslátt og staðlaðan frádrátt sem tryggir að hluti af ellilífeyri þínum sé skattfrjáls. Þú getur séð upphæð þessa afsláttar og frádráttar á heimasíðu skattayfirvalda (Skattestyrelsen).

Upphæðir ellilífeyris og aukagreiðslna

Ellilífeyrir á Grænlandi skiptist í tvo hluta: Grunnlífeyri og viðbótarlífeyri. Að auki er hægt að fá sérstakar aukagreiðslur í sumum tilfellum.

  • Sömu reglur gilda um grunnlífeyri fyrir alla ellilífeyrisþega á Grænlandi. Hann er háður tekjum þínum, en ekki tekjum maka þíns.
  • Greiðsla viðbótarlífeyris er háð því hvort þú átt maka eða ekki. Einnig eru viðbótarlífeyrisgreiðslur mismunandi eftir því hvort maki þinn er í vinnu og því hverjar heildartekjur heimilisins eru.

Auk grunnlífeyris og viðbótarlífeyris geta ýmsar félagslegar kringumstæður veitt þér rétt á aukagreiðslum:

  • Ef þú hefur barn undir 18 ára á framfæri þínu
  • Ef þú ert með mikla líkamlega eða andlega fötlun
  • Ef sveitarfélagið telur að ráðstöfunartekjur þínar eftir skatt séu of lágar til að standa straum af viðunandi lífskjörum

Ef þú átt í fjárhagserfiðleikum og skortir fé til matarkaupa, eða vegna mikilla ófyrirséðra útgjalda á afmörkuðu tímabili, getur sveitarfélagið samþykkt að veita þér eingreiðslu.

Hvað máttu þéna mikið meðfram ellilífeyrisgreiðslum?

Sem ellilífeyrisþegi hefurðu möguleika á að halda áfram að vinna, hugsanlega með lækkað starfshlutfall. Upphæð ellilífeyris þíns fer eftir tekjum þínum meðfram ellilífeyrisgreiðslunum. Ef tekjur þínar eða maka þíns fara yfir tiltekið hámark lækkar sú upphæð ellilífeyrisgreiðslna sem þú getur fengið.

Hafðu samband við sveitarfélagið þitt ef þú ert í vafa um hve háum ellilífeyrisgreiðslum þú átt rétt á meðfram vinnu.

Má flytja grænlenskan ellilífeyri með sér til annars norræns ríkis?

Almenna reglan er sú að ekki er hægt að flytja ellilífeyrisgreiðslur með sér frá Grænlandi. Flytjir þú til annars norræns ríkis skaltu því hafa samband við yfirvöld í því landi. Þar færðu aðstoð við að sækja um ellilífeyri frá Grænlandi eða öðru norrænu landi.

Þú getur heldur ekki fengið danskar eða færeyskar ellilífeyrisgreiðslur ef þú býrð á Grænlandi. Þá þarftu að sækja um grænlenskan ellilífeyri.

Greiðslur ellilífeyris við andlát

Við andlát ellilífeyrisþega er ellilífeyrir hins látna greiddur maka viðkomandi, sé maki til staðar, í tvo mánuði frá lokum þess mánaðar sem andlátið átti sér stað.

Til maka telst sá einstaklingur sem var giftur hinum látna ellilífeyrisþega, í staðfestri sambúð með honum eða hafði búið með honum sem maki í eitt ár eða lengur.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Hafir þú spurningar í tengslum við lagasetningu varðandi ellilífeyri á Grænlandi skaltu hafa samband við Departementet for Sociale Anliggender (félagsmálaráðuneytið).

Hafir þú spurningar í tengslum við umsókn þína um örorkulífeyri á Grænlandi skaltu hafa samband við búsetusveitarfélag þitt.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna