Leiðbeiningar: Flutt frá Íslandi

Gátlisti vegna flutnings frá Íslandi til hinna Norðurlandanna
Hugleiða þarf ýmis atriði við flutning frá Íslandi til einhvers af hinum Norðurlöndunum. Að neðan má finna lista yfir atriði sem gott er að muna eftir. Hafa ber þó í huga að listinn er ekki tæmandi og að misjafnt er hvaða atriði eiga við hvern og einn.

Lögheimilisskráning

Lögheimilisskráning fer eftir norrænum samningi um skráningu í þjóðskrá. Til að flytja lögheimili sitt þarf að snúa sér til þess aðila sem sinnir manntalsskráningu í því landi sem flutt er til. Í Danmörku eru það sveitarfélögin, í Svíþjóð og Noregi eru það skattayfirvöld og í Finnlandi eru það Magistraterna. Við skráningu er úthlutað kennitölu. Ekki þarf að tilkynna Þjóðskrá Íslands formlega um flutning frá Íslandi til annarra Norðurlandanna.

Það er mismunandi milli landa hversu lengi má dvelja þar án þess að skrá sig í þjóðskrá landsins, allt frá 6 mánuðum til 12 mánaða. 

Þeir sem fara í nám til Norðurlandanna flytja lögheimili sitt til þess lands sem farið er til. Þeir falla undir almannatryggingareglur viðkomandi lands. Aðstoð er veitt samkvæmt reglum í viðkomandi landi og getur verið breytileg milli landa.

Almannatryggingar

Þegar einstaklingur flytur til útlanda í atvinnuskyni er meginreglan sú að hann falli undir almannatryggingar þess lands sem flutt er til.

Ef flutt er tímabundið úr landi til þess að vinna þá er hægt að sækja um A1 vottorð. Með því heldur einstaklingurinn áfram að vinna sér inn réttindi á Íslandi og er áfram innan íslenska tryggingakerfisins. Það getur skipt máli að hafa A1 vottorðið meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði rukkað bæði hér á landi og erlendis. 

Þeir sem eiga von á greiðslum úr almannatryggingum þurfa að hafa samband við Tryggingastofnun fyrir flutning. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem fá örorku- eða ellilífeyri. Skila þarf inn skattframtali á Íslandi vegna lífeyrisgreiðslna, en best er að afla upplýsinga um það hjá Tryggingastofnun fyrir brottför.

Fæðingarorlof og barnabætur

Barnabætur á Íslandi eru greiddar út af skattayfirvöldum ólíkt hinum norrænu ríkjunum þar sem þær eru greiddar af ígildi Tryggingastofnunar eða sveitarfélaginu (Danmörk). 

Hjá þeim sem ekki eru búsettir á Íslandi allt árið eru barnabætur hlutfallaðar samkvæmt dvalartíma á Íslandi. Þetta á þó ekki við um námsmenn erlendis sem halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi, þeir eiga rétt á barnabótum hér á landi að því marki sem þær eru hærri en fengnar barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis frá.

Barnshafandi konur ættu að kynna sér vel reglur um fæðingarorlof áður en ákvörðun um flutning er tekin, þar sem það getur skipt miklu máli hvar barnið er fætt og eins þarf að hlíta nákvæmum reglum ef flytja á réttindi til fæðingarorlofs milli landa.

Skattar

Flutt erlendis vegna náms

Þeir sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti og haldið þannig öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir. Í því felst að við skattlagningu er tekið tillit til þess skattafsláttar og bóta sem hann ætti rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér allt árið. Tekjur og eignir erlendis hafa áhrif á skattlagninguna að teknu tilliti til ákvæða tvísköttunarsamninga og barnabætur og hliðstæðar greiðslur erlendis koma til lækkunar á barnabótum hér á landi.

Eingöngu þeir sem hafa verið búsettir hér síðustu fimm árin áður en nám erlendis hófst geta haldið hér skattalegri heimilisfesti. Einnig verður nám að hefjast innan þriggja mánaða frá flutningi.

Flutt erlendis vegna vinnu

Á heimasíðu Nordisk eTax má finna mikið af gagnlegum upplýsingum er varðar skattlagningu tekna. 

Flutningur á búslóð og bifreiðum

Nauðsynlegt er að kynna sér tollareglur vel ef flytja á búslóð eða bíl með sér til norræns ríkis. Skráningargjöld ökutækja getur verið mikill og kostnaður við flutning er oft hár og því þarf að skoða málið vel og reikna út hvort það borgi sig að taka ökutæki með.

Atvinnuleysisbætur

Ef þú þiggur atvinnuleysisbætur getur þú farið í atvinnuleit til Evrópu og haldið dagpeningum þínum. Þá ferðu til útlanda með svokallað U2 vottorð, það  veitir þér rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í allt að þrjá mánuði (en þó aldrei í lengri tíma en bótaréttur leyfir) meðan þú ert að leita þér að vinnu í EES ríki. Umsóknareyðublað um U2 er hægt að nálgast á skrifstofum Vinnumálastofnunar um land allt, sem og á vef Vinnumálastofnunar.

Aðalskilyrði þess að fá útgefið U2 vottorð, eru að þú þarft að vera algjörlega atvinnulaus, hafa þegið bætur samfellt í fjórar vikur fyrir brottför og ekki hafa hafnað atvinnutilboði.

Sækja þarf um vottorðið 3 vikum fyrir brottför. Gildistími þess er allt að 3 mánuðir.

Stofna bankareikning í öðru norrænu landi

Gott getur verið að hafa samband við banka, til dæmis til að loka reikningum, breyta heimilisfangi á reikningum eða ganga frá lánum fyrir flutning. Eins getur verið gagnlegt að hafa með bréf eða eins konar meðmæli frá bankanum til að framvísa þegar opnuð eru viðskipti við banka í nýja landinu.

Nauðsynleg lyf

Gott getur verið að hafa samband við lækna og fá læknabréf á Norðurlandamáli eða ensku ef þú þjáist af undirliggjandi sjúkdómum. Gott er að hafa lyfseðil fyrir nauðsynlegum lyfjum til að hafa fyrstu vikurnar í nýju landi.

Áskriftir

Segja þarf upp áskriftum að sjónvarpi, líkamsrækt, síma og öðru þess háttar.

Póstur

Huga þarf að því að póstur berist áfram, til dæmis með því að áframsenda hann út eða til ættingja, og breyta heimilisföngum hjá bönkum og öðrum stofnunum

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna