Formennska Íslands í Norðurlandaráði 2015

Altinget i Reykjavik, Island
Ljósmyndari
Ane Cecilie Blichfeldt
Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2015

Framtíð Norðurlanda

Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2015

Norðurlandaráð hefur kosið sér forseta og varaforseta úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs til að fara með formennsku á starfsárinu 2015.

Áætlun hinnar íslensku formennsku árið 2015 byggist á formennskuáætlun Noregs árið 2013 og Svíþjóðar árið 2014 og hefur tengingar við formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og Danmerkur árið 2015.

Íslenska formennskuáætlunin í Norðurlandaráði árið 2015 horfir til framtíðar og vill stuðla að því að búa íbúum og fyrirtækjum Norðurlanda sem best skilyrði. Áætlunin hefur þrjú áherslusvið sem eru og munu verða mikilvæg fyrir norræn samfélög og stöðu Norðurlanda í samfélagi þjóðanna. Þau eru:

  1. Alþjóðlegt samfélag.
  2. Velferðarsamfélag.
  3. Borgaralegt samfélag.

1. Alþjóðlegt samfélag

Utanríkis-, öryggis- og varnarmál

Umfjöllun Norðurlandaráðs um utanríkismál hefur aukist á síðustu árum og skipar mikilvægan sess á þingfundum ráðsins. Norðurlandaráð undir forustu Svía árið 2014 hefur talað skýru máli um atburði á nærsvæði Norðurlanda, m.a. í yfirlýsingu þingfundar ráðsins á Akureyri vorið 2014.  Þá hefur umfjöllun Norðurlandaráðs um öryggismál aukist til muna eftir tilkomu Stoltenberg-skýrslunnar árið 2009 og áherslu Norðurlandaráðs á málaflokkinn undir forustu Norðmanna árið 2013, bæði á vorþingfundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi það ár sem og á hringborðsráðstefnum ráðsins um varnarmál í Helsinki og Ósló árin 2013 og 2014. Markmið íslensku formennskunnar er að halda áfram á sömu braut sem fetuð hefur verið síðustu ár til að stuðla að stöðugleika og lýðræðisþróun á nærsvæðum Norðurlanda til framtíðar.

Norðurslóðir, Vestur-Norðurlönd og grannar í vestri

Norðurslóðir hafa skipað æ stærri sess í starfi Norðurlandaráðs á síðustu áratugum. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar, á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum og Norðurlandaráð átti stóran þátt í að koma á fót Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál sem síðan leiddi af sér stofnun Norðurskautsráðsins. Markmið íslensku formennskunnar er að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið á þessari öld varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál, m.a. í tengslum við formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði árið 2011 og vorþingfund ráðsins í Reykjavík árið 2012. Markmið íslensku formennskunnar er einnig að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við granna í vestri, m.a. vegna þeirra ríku norrænu hagsmuna sem felast í öryggis- og umhverfismálum þess svæðis sem eru sífellt að aukast.

2. Velferðarsamfélag

Framtíðarsamstarf í heilbrigðismálum

Íslenska formennskan í Norðurlandaráði fagnar áherslu Norrænu ráðherranefndarinnar á sjálfbæra norræna velferð og gerð Könberg-skýrslunnar. Stór hluti af útgjöldum velferðarsamfélagsins fer til heilbrigðismála og er vel að heilbrigðisráðherrarnir hafi nú þegar tekið ákvörðun um að fylgja eftir fimm af fjórtán tillögum Könbergs-skýrslunnar. Íslenska formennskan fagnar því einnig að heilbrigðisráðherrarnir hafi falið framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í tilefni ebólufaraldursins að kanna hvort samhæfa megi aðgerðir Norðurlandanna í því skyni að koma í veg fyrir smithættu, veita aðgang að tækjum og meðferð og samræma norrænar varúðarráðstafanir við sjúkraflutninga. Markmið íslensku formennskunnar er að fylgja Könberg-skýrslunni einnig eftir til að efla norrænt samstarf um heilbrigðismál til framtíðar.

Lýðheilsa

Á síðustu áratugum hefur þróunin verið sú að langvinnir ósmitnæmir sjúkdómar á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, krabbamein og sykursýki eru nú orðnir orsök flestra dauðsfalla í heiminum. Helstu áhættuþættir langvinnra sjúkdóma eru tóbaksreykingar, óheilsusamlegt mataræði, hreyfingarleysi og misnotkun áfengis. Ef litið er 25 ár fram í tímann er ljóst að sporna þarf við þessari þróun þar sem langvinnir sjúkdómar eru ekki aðeins ógn fyrir heilbrigði heldur líka fyrir efnahag samfélaga ef dánartíðni heldur áfram að aukast og lægra hlutfall vinnufærra íbúa leiðir til minni framleiðni. Markmið íslensku formennskunnar er að huga að þróun lýðheilsu á Norðurlöndum til lengri tíma og kanna hvað hægt sé að gera frekar sameiginlega á norrænum vettvangi til að sporna við þróuninni.

3. Borgaralegt samfélag

Norræn félagasamtök

Norrænt samstarf nýtur stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta almennings á Norðurlöndum. Norræn samvinna hvílir á grundvelli öflugs borgaralegs samfélags, þ.á.m. öflugra norrænna félagasamtaka. Á árinu 2015 er 50 ára afmæli Sambands norrænu félaganna. Íslenska formennskan í Norðurlandaráði vill af því tilefni fjalla um tengsl norrænu félaganna og Norðurlandaráðs og kanna hvort unnt sé að auka vægi Sambands norrænu félaganna í umsögnum fyrir þingmál Norðurlandaráðs. Markmið íslensku formennskunnar er að stuðla að áframhaldandi öflugri starfsemi norrænu félaganna og annarra norrænna félagasamtaka á næstu áratugum.

Stjórnsýsluhindranir

Hagur almennings og fyrirtækja á Norðurlöndum ræðst líka af því hversu mikið umfang stjórnsýsluhindrana er milli Norðurlanda. Vettvangur um afnám stjórnsýsluhindrana og Stjórnsýsluhindranaráðið hafa unnið mikilvægt starf á síðastliðnum árum. Íslenska formennskan í Norðurlandaráði vill styðja við starf Stjórnsýsluhindranaráðsins og fylgja eftir því starfi sem unnið hefur verið í Norðurlandaráði í þessum málaflokki. Ástæða er til að veita stjórnsýsluhindrunum ungs fólks sérstaka athygli þar sem hreyfanleiki þess vegna menntunar, starfsreynslu og vinnu er mikilvægur til að stuðla að áframhaldandi tengslum almennings og fyrirtækja á Norðurlöndum þvert yfir landamæri, sem er grundvöllur norræns samstarfs til framtíðar.