Mikil trú á auknu samstarfi eftir þing Norðurlandaráðs

04.11.21 | Fréttir
Annette Lind på Nordiska rådets session 2021.

Annette Lind på Nordiska rådets session

Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org

Varaforsetinn Annette Lind og forsetinn Bertel Haarder.

Það er ástæða til bjartsýni um nánara norrænt samstarf í viðbúnaðarmálum í framtíðinni. Þetta segir Annette Lind, varaforseti Norðurlandaráðs, sem telur ýmislegt á þingi Norðurlandaráðs benda til þess að mikil samstaða ríki um að Norðurlöndin þurfi að vinna betur saman að loknum heimsfaraldinum.

Norrænt samstarf hefur legið undir mikilli gagnrýni í kórónuveirufaraldrinum og þá sérstaklega vegna aðstæðna á landamærasvæðum. Á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn leiddu umræðurnar þó í ljós að á meðal stjórnmálamanna er vilji til að vinna að því að norrænu löndin sýni meiri samstöðu og verði undirbúin fyrir næstu krísu.

Leiðtogafundur Norðurlandaráðs með forsætisráðherrum Norðurlandanna á miðvikudaginn sýndi meðal annars að vilji er fyrir hendi til að gera og það sama má segja um yfirlýsingu forsætisráðherranna um öflugt norrænt samstarf um neyðarviðbúnað.
Auk þess kynnti fyrrum ráðherrann Jan-Erik Enestam á þinginu tólf tillögur sínar um aukið samstarf, sem einnig eru jákvætt merki um skref í rétta átt.

Nú er rétti tíminn fyrir aukið samstarf

„Nú er pólitískur vilji fyrir hendi. Og maður finnur jákvæðnina í líkamanum. Við áttum virkilega góðan leiðtogafund með forsætisráðherrunum. Þeir voru þarna allir og það sýnir að það er mikill vilji fyrir því að efla norrænt samstarf. Þó fannst mér um leið of mikil áhersla vera lögð á það sem hefur gerst til þessa, því við viljum jú fá svör við því hvað gerist héðan í frá og í framtíðinni,“ segir Annette Lind.

Telur þú að það sé vilji meðal forsætisráherranna til að grípa til beinna aðgerða?

„Það tel ég hiklaust. Við spjöllum við þá á göngunum og ég upplifi það þannig að nú vilji þeir víðtækara samstarf frekar en nokkru sinni fyrr. Við erum á góðri leið með að fá enn nánara samstarf á Norðurlöndum.“

Heimsfaraldur bindur ekki enda á samstarfið

Annette Lind er einnig vongóð varðandi vandamálin sem fólk sem býr á landamærasvæðum og ferðast milli landa vegna vinnu hefur orðið fyrir vegna lokaðra landamæra.

„Í framtíðinni getum við ef til vill komist hjá því að loka landamærum með auknu samstarfi um neyðarviðbúnað. Nú eru nokkur sár sem þurfa að gróa en ég tel að það þurfi meira til en heimsfaraldur til að binda endi á norrænt samstarf.

73. þing Norðurlandaráðs var haldið í Kaupmannahöfn 1.–4. nóvember. Samstarf á erfiðleikatímum var meginþema þingsins. Finnland fer með formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári og þá verður þingið haldið í Helsinki.