Saman gegn matarsóun
Meðal þeirra er Selina Juul, stofnandi Stop Spild af Mad en það er dönsk hreyfing neytenda gegn matarsóun. Selina hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs ársins 2013 fyrir brautryðjandastarf sem falist hefur í því að kynna nýjar leiðir til að draga úr matarsóun í Danmörku. Nú hyggst hún færa kvíarnar út til allra Norðurlandanna.
Nýjar leiðir til að draga úr matarsóun
Selina Juul lítur ekki síst á starf sitt sem leið til að brúa bilið milli hárra og lágra, milli þjóðkjörinna fulltrúa og hins almenna borgara.
„Fólk eins og ég á þátt í að láta pólitíska framtíðarsýn og stórar yfirlýsingar rætast með því að láta verkin tala og koma þannig á breytingum.“ Selina Juul er þegar búin að ráðstafa norræna verðlaunafénu sem nam um 7 milljónum íslenskra króna.
„Við ætlum að mynda nýtt tengslanet sem á að hámarka nýtingu á matarleifum. Í stuttu máli hyggjumst við koma upp nýju og víðtæku kerfi, vefsíðu og appi, þar sem gefendur og þiggjendur matar sem að öðrum kosti yrði fargað geta mælt sér mót og samið um afhendingu matarins.“
Aukinn sveigjanleiki myndi draga úr geymsluþörf og eiga þátt í að tryggja miklu betri nýtingu á umframbirgðum matvælaframleiðenda, á matarafgöngum í stóreldhúsum og hjá stórmörkuðum.
Frá matarsóun til græns hagvaxtar
Norrænu forsætisráðherrarnir hafa í sama anda átt frumkvæði að fjölda verkefna um grænan hagvöxt. Markmiðið er að kanna hvernig enn öflugra norrænt samstarf getur rutt brautina fyrir sjálfbæru hagkerfi. Eitt verkefni fjallar um matarsóun þar sem könnuð er notkun á matarbönkum þvert á landamæri.
Þar getur frumkvæði Selinu Juul til að leiða saman gefendur og þiggjendur gegnt mikilvægu hlutverki. Sama á við um áætlun hennar um að hrinda í framkvæmd stórum norrænum viðburði um matarsóun en slíkur viðburður gæti leitt til þess að löndin yrðu betur samstíga í þessum málum.
Pólitísk markmið eru eitt en framkvæmd þeirra annað. Í því sambandi er vert að benda á að tískuorð eins og grænn hagvöxtur eru líkleg til að vekja hrifningu, einnig hjá grasrótinni.
„Hugtök eins og grænn hagvöxtur og lífhagkerfi hafa þegar skotið rótum í hugum fólks. Auðlindir okkar eru að þorna upp og því verðum við að vanda neysluvenjur okkar og leita nýrra leiða,“ segir Selina Juul en hún lætur sér fátt finnast um pólitísk slagorð.
„Það er engin samkeppni á milli liða í svo veigamiklum málum. Við erum öll á sama báti hvort sem við erum stjórnmálamenn, embættismenn, iðnrekendur, atvinnurekendur eða almennir borgarar. Mestu máli skiptir að leggja sitt af mörkum hver sem við erum og hvert og eitt á okkar hátt,“ segir Selina Juul ábúðarfull.
Norrænt samstarf byggist ekki síst á tengslanetum og líkt og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, leggur Selina áherslu á hlutverk Norðurlandanna á alþjóðavettvangi.
„Verði okkur ágengt í baráttunni gegn matarsóun á Norðurlöndum getur það orðið öllum heiminum til eftirbreytni,“ segir Selina Juul að lokum en hún segist vera bjartsýn á baráttuna gegn matarsóun.
Dagfinn Høybråten tekur í sama streng.
„Mergur málsins er sá að matur sem framleiddur er á að metta maga en ekki enda á öskuhaugunum. Ég vona að vitund Norðurlandabúa um matarsóun styrkist svo um munar á næstu árum. Þar er sóknarfæri fyrir Norðurlönd.“
Aðdragandi
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 eru veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefur vöru eða uppfinningu eða með öðrum hætti aukið nýtni auðlinda og þar með átt þátt í að draga úr náttúruspjöllum af mannavöldum.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna áttu frumkvæði að áætlun um grænan hagvöxt en markmið hennar er að kanna sóknarfæri í norrænu samstarfi um sjálfbæran hagvöxt á ýmsum sviðum. Alls tíu verkefni eru hafin og fjallar eitt þeirra um matarsóun.