Alex Khourie

Ljósmyndari
Kajsa Göransson
Alex Khourie: Bror. Unglingabók, Rabén & Sjögren, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Bror („Bróðir“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) færir lesandann lóðbeint inn í eitt allra brýnasta vandamálið í sænsku samfélagi – starfsemi glæpagengja með tilheyrandi ofbeldi og skotárásum þar sem meðalaldur hlutaðeigenda verður sífellt lægri.  

 

Lesandinn fær það sterklega á tilfinninguna að þetta sé ekta, að hér sé þessum heimi lýst af miklu innsæi. Ýmsir þættir ýta undir þessa tilfinningu: lýsingar höfundar á daglegu lífi í Alby, úthverfi Stokkhólms, sem gæddar eru skörpum smáatriðum sem spanna allt frá mismunandi menningarheimum og trúarbrögðum til matarvenja, það hvernig textinn fangar fullkomlega hinar stéttabundnu mállýskur og notkun arabískra orða í sænskunni, svo og lýsingin í upphafi á stemningunni innan gengisins, stigveldinu og átökunum innan þess. Margir þeirra hópa sem nefndir eru í bókinni eru til í alvörunni. 

 

Eftir að hafa stundað smáglæpi ásamt tveimur vinum er aðalpersónan Hussein innlimaður í gengi og dregst æ lengra inn í atburðarás sem snýst fljótlega til hins verra. Áður en varir sér hann enga leið út lengur – og að lokum verða fjárkúganir og hótanir til þess að hann fremur morð. 

  

Hussein er trúrækinn shia-múslimi og glímir stöðugt við samvisku sína og þá sannfæringu að hann muni fara til helvítis fyrir gjörðir sínar. Íslam er lýst af mikilli innsýn í allar hliðar trúarinnar, sem styrkir innlifun lesandans enn frekar. 

 

Í bókinni birtist hjálparleysi samfélagsins gagnvart þessum atburðum með ógnvænlega skýrum hætti. Þrátt fyrir fálmkenndar tilraunir megna hvorki skólinn, félagsþjónustan né ástkær móðir Husseins að snúa þróuninni við og beina honum inn á aðra braut. Hann er vistaður á dvalarheimili fyrir ungmenni í svipaðri stöðu og í fyrstu virðist það geta opnað honum ný tækifæri, en að lokum neyðist hann til að snúa aftur til Alby og til móts við hörmuleg endalok. Lýsingin á þvingun, á því að engin önnur leið sé fær, gerir lestrarupplifunina óhugnanlega á hátt sem erfitt er að brynja sig gegn. 

 

Pabbi Husseins er dáinn og hann er beittur ofbeldi af nýja manni mömmu sinnar – en það nægir ekki til að útskýra þær skaðlegu ákvarðanir sem hann tekur. Alex Khourie útskýrir ekkert yfirhöfuð, sýnir okkur aðeins þann veruleika sem hann hefur séð – og fegrar ekkert. 

 

Höfundurinn er félagsráðgjafi á fertugsaldri sem hefur starfað lengi með ungmennum í glæpagengjum. Bókin er byggð á þeim sögum sem hann hefur heyrt frá ungmennum í starfi sínu. Alex Khourie er dulnefni sem hann notar í því skyni að vernda skjólstæðinga sína og til að fyrirbyggja að þeim finnist hann vera að græða á reynslu þeirra. 

 

Bror er fyrsta bók Alex Khouries.