Anders N. Kvammen

Ungdomsskolen
Anders N. Kvammen: Ungdomsskolen. Teiknimyndasaga, No Comprendo Press, 2016

Aksel er að byrja í nýjum skóla í unglingadeild og reynir eftir bestu getu að fóta sig meðal ókunnugra bekkjarfélaga. Kennslan er þung, heimaverkefnin leiðinleg, ekkert nema einelti og einmanaleiki en smám saman kemur frí, hann verður ástfanginn og eignast nýja vini. Í tíunda bekk verður Aksel fyrir því að náinn ættingi hans og bandamaður deyr. Í kjölfarið verður hann þunglyndur og leitar til sálfræðings. Smám saman birtir til þegar foreldrarnir grípa inn og eins er Aksel svo lánsamur að eiga að skilningsríkan kennara og skólasystkin sem standa með honum. Þremur árum síðar er Aksel búinn með grunnskólann. Því fylgir engin endanleg lausn á vandamálum hans, en hann öðlast þó aukna stjórn á eigin lífi, og næsta haust byrjar hann í framhaldsskóla.

Hér er á ferð ljúfsár og berskjölduð myndasaga sem spannar þrjú ár í lífi ósköp venjulegs unglings, er ljót á stundum, en einnig full bjartsýni og birtu. Engir stórbrotnir atburðir eiga sér stað, aðeins röð hversdagslegra atvika sem saman mynda raunsæja en lágstemmda heild. Ungir lesendur munu þekkja sjálfa sig í textanum og hin fullorðnu minnast eflaust þessara umbyltingartíma af góðu og illu. Lesandann grunar að Anders N. Kvammen sæki efniviðinn í eigin æsku.

Svarthvítar teikningarnar eru grófgerðar en tjáningarríkar, ýmist nærmyndir eða víðari yfirlitsmyndir. Umhverfið – hvort sem það er skólastofa, heimili, kirkja, úti á götu, á strönd, uppi á fjalli eða úti í skógi – er lýsandi fyrir skap Aksels hverju sinni. Teikningar og texti bæta hvað annað upp á ljóðrænan hátt.

Teiknimyndasögur Anders N. Kvammen hafa birst á vefnum um árabil, en þetta er hans fyrsta bók. Ungdomsskolen („Unglingadeildin“, hefur ekki komið út á íslensku) hlaut Brageverðlaunin sem besta barna- og unglingabók ársins 2016.