Bergmál – Ísland
Sögusviðið er Ísland um jólaleytið. Meðan fólk er önnum kafið við undirbúning hátíðarinnar tekur sérstakt andrúmsloft völdin og afhjúpar bæði eftirvæntingu og áhyggjur. Lengst uppi í sveit brennur eyðibýli. Í grunnskóla syngur barnakór jólalög. Í sláturhúsi ganga kjúklingar fylktu liði. Á safni rífst móðir í símann við fyrrverandi eiginmann sinn. Inni í stofu fær ung stúlka ömmu sína til að prófa nýja sýndarveruleikatækið sitt … Gegnum 56 senur dregur Bergmál upp nístandi og hjartnæma mynd af nútímasamfélagi.
Rökstuðningur dómnefndar
Í Bergmáli eftir Rúnar Rúnarsson mætast örsögur sem gerast samtímis kringum jól og áramót, sem er bæði viðkvæmur og hátíðlegur tími. Tími sem hvetur fólk til að endurskoða líf sitt og vekur meiri söknuð en vanalega eftir fjarstöddum ástvinum. Hver saga hefur opið upphaf og opin endalok, hver og ein er eins og sneiðmynd af tilveru.
Bergmál fjallar um efnishyggju og neyslusamfélagið, samveru og einmanaleika, ást og ofbeldi, líf og dauða, sem hefur sinn tíma. Hinu trúarlega og hátíðlega er stillt upp gegn því lítilvæga og hversdagslega, sjálfu lífinu. Enn fremur dregur myndin athygli áhorfandans að umdeildari viðfangsefnum á borð við málefni flóttafólks. Bergmál er beitt og djúp greining á samfélagi okkar og þess mörgu lögum og frásagnaraðferðina má kalla ljóðrænt raunsæi, óð til hversdagsins, fegurðar hans og grimmdar. Þetta er afar íslensk mynd sem þó hefur algilda skírskotun.
Handritið er krökkt af fegurð og ljóðrænu, hver sena inniheldur eina, kyrrstæða töku, eitt fagurlega samansett og þaulhugsað sjónarhorn, sterkt myndmál og afburða kvikmyndagerð. Tónlistin er lágstemmd en þó áhrifamikil.
Handritshöfundur/leikstjóri/framleiðandi – Rúnar Rúnarsson
Rúnar Rúnarsson (1977) útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2009. Stuttmynd hans Síðasti bærinn var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2004 og sú næsta, Smáfuglar, til Gullpálmans í Cannes árið 2008. Frumraun hans í fullri lengd, Eldfjall, var heimsfrumsýnd á Directors’ Fortnight í Cannes árið 2011 og vann til Edduverðlauna sem besta myndin, fyrir bestu leikstjórn og besta handrit. Önnur mynd hans í fullri lengd, Þrestir, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og hlaut 17 verðlaun víða um heim, þar á meðal Golden Shell-verðlaunin fyrir bestu mynd á kvikmyndahátíðinni í San Sebastián árið 2015. Árið eftir var hún tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.
Bergmál er þriðja kvikmynd Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd. Myndin samanstendur af 56 senum sem gerast kringum jól og nýár og var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno, þar sem hún hreppti verðlaun dómnefndar unga fólksins. Hún hefur einnig hlotið alþjóðlegar viðurkenningar á borð við verðlaun fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Valladolid og Church-verðlaun sem besta myndin í Interfilm-flokki á kvikmyndahátíðinni í Lübeck.
Framleiðandi – Live Hide
Live Hide (1988) útskrifaðist með meistaragráðu í kvikmyndafræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2014. Hún hóf feril sinn hjá framleiðslufyrirtækinu SF Studios í Danmörku, þar sem hún var ráðin til að aðstoða við framleiðslu myndarinnar Marie Krøyer eftir Bille August og heimildarmyndarinnar Jeg taler til jer eftir Jørgen Leth. Árið 2014 gekk hún til liðs við Nimbus Films. Hún aðstoðaði við framleiðslu myndanna Steppeulven og Tordenskjold & Kold, var aðstoðarmeðframleiðandi Mordene i Congo eftir Marius Holst og framleiddi vefþáttaröðina Løbeklubben.Síðasta myndin sem hún framleiddi er Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson, sem var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno.
Framleiðandi – Lilja Ósk Snorradóttir
Lilja Ósk Snorradóttir (1977) er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og hefur starfað í kvikmyndageiranum í meira en 20 ár. Hún er meðeigandi í framleiðslufyrirtækinu Pegasus Pictures sem stofnað var 1992 og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækisins frá árinu 2010. Hún hefur meðal annars framleitt sjónvarpsþáttaröðina Hraunið, sem hlaut Edduverðlaun sem besta þáttaröð árið 2015, og Útrás Reykjavík, margverðlaunaða stuttmynd Ísoldar Uggadóttur. Lilja Ósk var meðframleiðandi að frumraun Ísoldar í fullri lengd, Andið eðlilega, sem hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn í flokkinum World Cinema Dramatic Competition á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2018. Einnig hefur hún meðframleitt Grafir og bein eftir Anton Sigurðsson og spennumyndina Thriller með Mads Mikkelsen í aðalhlutverki, sem var heimsfrumsýnd á miðnætursýningu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2018. Bergmál er önnur myndin sem Lilja Ósk Snorradóttir og Rúnar Rúnarsson vinna að saman. Sú fyrri var Þrestir (2015), þar sem Lilja Ósk var meðframleiðandi. Hjá Pegasus hefur Lilja Ósk unnið að stórverkefnum á borð við Game of Thrones og Succession fyrir HBO, svo og Fortitude fyrir Sky Atlantic. Í augnablikinu vinnur hún meðal annars að dönsku kvikmyndinni Lille sommerfugl í leikstjórn Søren Kragh-Jacobsen.
Upplýsingar um myndina
Titill á frummáli: Bergmál
Enskur titill: Echo
Leikstjórn: Rúnar Rúnarsson
Handritshöfundur: Rúnar Rúnarsson
Framleiðendur: Rúnar Rúnarsson, Live Hide, Lilja Ósk Snorradóttir
Framleiðslufyrirtæki: Nimbus Film Iceland, Pegasus Pictures
Lengd: 79 mínútur
Dreifing í heimalandi: Sena
Alþjóðleg dreifing: Jour2Fête