Georg Olsen

Georg Olsen
Ljósmyndari
Leiff Josefsen
Tilnefndur fyrir verkið „Inri“

Georg Olsen er þekktur listmálari og leikari en einnig framúrskarandi tónskáld og textasmiður frá Aasiaat á Norður-Grænlandi. Hann er óhræddur við að hnika til mörkunum og leitast stöðugt við að endurnýja sig sem tónlistarmaður. Hann kemur áheyrendum sífellt á óvart þegar hann sendir frá sér nýjan disk.

Inri er fjórði diskur Georgs Olsens og tónlistin er þungarokk með rafrænum hljóðum. Upptakan fór fram í Kangersuatsiaq, 173 manna þorpi langt norðan við heimskautsbaug á Grænlandi þar sem ekki sést til sólar svo mánuðum skiptir yfir vetrartímann. Upptökurnar á Inri fóru fram í litlum kofa með sjómönnum og veiðimönnum sem spila þungarokk.

Við áheyrnina birtist tónaveröld sem undirleikur við áhrifamikla texta um ástir og einmanaleika, vonbrigði og reiði. Reiði yfir vandasamri arfleifð nýlendutímans, grænlenskar goðsagnir, söguna, trú og kærleik. Tónlistin leiðir áheyrandann gegnum skammdegið á norðurhjara.

Inri fjallar um reiðina, kærleikann og söguna. Titillinn vísar til Jesú og síðustu daga hans en boðskapurinn er: „Ætlum við virkilega að láta söguna endurtaka sig og drepa þá sem koma okkur til hjálpar? Krossfestið ekki frelsara okkar, refsið honum ekki. Við komum til hans.“ Verkið er knúið áfram af tilfinningum, anda og innsæi.

Georg Olsen tók mikla áhættu þegar hann ákvað að semja tónlist í miskunnarlausum stíl þungarokksins. Hann sækir sér innblástur víða með ótrúlega góðum árangri. Georg Olsen er sannur listamaður sem framleiðir tónlist af fremstu gerð.