Handhafi barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020

Jens Mattsson & Jenny Lucander
Ljósmyndari
Jose Figueroa & Niklas Sandström
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020 hlýtur bókin „Vi är lajon!“ eftir sænska rithöfundinn Jens Mattsson og Jenny Lucander myndskreyti frá Finnlandi.

Rökstuðningur dómnefndar

Verðlaunabókin í ár stendur staðfastlega með barninu og sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum. Leikurinn hefur heilunarmátt þegar hið þungbærasta af öllu dynur á: lítið barn veikist af banvænum sjúkdómi. Þykjustu-hitabeltisgresja með líflegri, rauðgulri litadýrð hefur innreið sína í dauflegan heim sjúkrahússins. Fjörlegur leikurinn rúmar alla þá depurð og áhyggjur sem sjúkdómurinn hefur leyst úr læðingi. Skrautleg smáatriði og litagleði í myndskreytingum bókarinnar eiga í kotrosknu samtali við þá norrænu myndabókahefð sem við þekkjum úr verkum Ingrid Vang Nyman og Tove Jansson, en tjáningarmátinn er þó einstakur og þrunginn frumleika í sjónarhorni, aðferð, litavali og persónulýsingum. Textinn styður við myndirnar með stílhreinum hætti og áleitin frásögnin í fyrstu persónu dregur dám af ýkjukenndum leiknum. Lýsingarnar á umhyggju foreldranna og örvæntingu geyma hina sáru og kyrrlátu þætti verksins. Með bræðraástinni og hugrekkinu sem einkennir sögulokin er ýjað að því að nýtt Nangijala fyrirfinnist. Vi är lajon! („Við erum læón!“) er heillandi verk fyrir lesendur á öllum aldri sem ber vitni um norrænt samstarf af bestu gerð.