Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021

Eivør Pálsdóttir fick Nordiska rådets musikpris 2021

Eivør Pálsdóttir fick Nordiska rådets musikpris 2021

Ljósmyndari
Norden.org/Magnus Fröderberg
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021 hlýtur hin færeyska Eivør Pálsdóttir.

Rökstuðningur dómnefndar

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021 hlýtur hin færeyska Eivør Pálsdóttir. Eivør hefur byggt upp einstakan feril síðan hún steig nánast fullsköpuð fram á sjónarsviðið í heimalandi sínu, Færeyjum. Hún er afburðahæfileikarík tónlistarkona og hefur gagntekið tónlistarunnendur um allan heim með undurfagurri söngrödd, frábærum gítarleik og heillandi sviðsframkomu. Fyrsta plata hennar, sem bar nafn hennar sjálfrar og kom út árið 2000, bar blæ af þjóðlagatónlist og djassi en síðan hefur Eivør reynt sig við fjölbreytilegar tónlistargreinar; drepið niður fæti í „noise“-rokki, kántrítónlist, tilraunakenndri tónlist, sígildri tónlist og ósviknum poppdívusöng. Öll þessi verkefni hefur hún tekist á við af óvenjumiklu listfengi og heilindum.

Eivør hefur beint sjónum umheimsins að heimalandi sínu með þrotlausri vinnusemi undanfarin ár og hún vinnur af kostgæfni með eigin tónlistararfleifð og móðurmál. Eivør er ósvikinn norrænn listamaður, en um leið hefur henni tekist að marka sér sess sem alþjóðleg poppstjarna sem ferðast um allan heim og er þekkt fyrir sviðsframkomu sína. Hún er hugrökk og forvitin í listsköpun sinni og kann að tengjast áhorfendum sínum á merkilega afslappaðan hátt, með því að snerta á hinu mannlega innra með okkur öllum af bæði þokka og reisn.