Laura Lindstedt & Sinikka Vuola

Laura Lindstedt & Sinikka Vuola

Laura Lindstedt & Sinikka Vuola 

Ljósmyndari
Photo: Laura Malmivaara
Laura Lindstedt & Sinikka Vuola: 101 tapaa tappaa aviomies. Menetelmällinen murhamysteeri. Skáldsaga, Siltala, 2022. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 
Árið 1983 birti finnska tímaritið Alibi frétt um finnska konu sem kölluð var Anja B. og hafði skotið norskan eiginmann sinn, Thorvald að nafni, til bana með riffli. Sögulegur dómur féll í málinu í héraðsdómi Óslóar þar sem hinn látni var sagður sekur, en hann hafði misþyrmt konu sinni með skelfilegum hætti árum saman. Dóttir hjónanna á táningsaldri var lykilvitni í dómsmálinu. 

 

Í verkinu 101 tapaa tappaa aviomies: Menetelmällinen murhamysteeri („101 leið til að drepa eiginmanninn: Aðferðafræðileg morðgáta“, óþýdd) skrifa þær Laura Lindstedt og Sinikka Vuola 101 tilbrigði við þessa frásögn, varpa þannig ljósi á hana frá ýmsum hliðum og máta mismunandi ramma við atburðarásina. Útkoman er kostulega gáfulegur, óvæntur, hjartnæmur, skemmtilegur og fjölbreytilegur kokteill sem leiðir hugann að verkum hins franska Oulipo-hóps. Á meðal þeirra tilbrigða sem höfundar nýta sér eru stafarugl, limra, ballaða, sonnetta, vögguvísa og ýkjustíll. 

 

Úr verður heildarmynd af því svívirðilega ofbeldi sem Anja var beitt í daglegu lífi og um leið er snúið á haus hefðbundnum efnistökum glæpasagna, þar sem frásögnin hefst gjarnan á dauða ungrar konu. Hér er það ofbeldisfullur eiginmaður sem deyr – í 101 skipti. 

 

Laura Lindstedt (f. 1976) leggur nú lokahönd á doktorsritgerð um leitni og samskiptaörðugleika í verkum franska rithöfundarins Nathalie Sarraute. Lindstedt hlaut Finlandia-verðlaunin fyrir skáldsöguna Oneiron – fantasia kuolemanjälkeisistä sekunneista (2015), sem einnig var tilnefnd til Runeberg-verðlaunanna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þýðingarréttur á síðustu skáldsögu hennar, Ystäväni Natalia (2019), hefur verið seldur til fjölmargra landa.  

 

Sinikka Vuola (f. 1972) hlaut Kalevi Jänti-verðlaunin fyrir fyrstu ljóðabók sína, Orkesteri jota emme kuule (2007), og fyrsta skáldsaga hennar, Replika (2016), var tilnefnd til Runeberg-verðlaunanna. Vuola er meðlimur í félagsskapnum Mahdollisen kirjallisuuden seura, sem fæst við að kanna aðferðir prósaskáldskapar, og þær Lindstedt komu báðar að ritun samvinnuskáldsögunnar Ihmiskokeita (2016). Vuola hefur einnig ritstýrt erótíska ljóðasafninu Olet täyttänyt ruumiini tulella (2017).