Onkel – Danmörk

Bild från "Onkel" - Peter H. Tygesen och Jette Søndergaard och Tue Frisk Petersen
Photographer
88miles/Per Arnesen
Danska kvikmyndin „Onkel“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Kris býr í danskri sveit og rekur lítið býli ásamt eldri frænda sínum, sem er öryrki að hluta. Sérviskulegt en ástríkt samband þeirra hverfist um dagleg störf og þar eru orð óþörf. Kris sér um mestu erfiðisvinnuna og hefur axlað móðurlegt og ofverndandi hlutverk gagnvart frænda sínum. Þegar Kris bjargar lífi nýborins kálfs við erfiðar aðstæður er áhugi hennar á dýralækningum endurvakinn. Hún stofnar til vináttu við málglaða dýralækninn Johannes og fer smám saman að kynnast tilverunni fjarri býlinu. Þegar ástin knýr dyra vaknar spurning sem gæti umbylt tilveru hennar.

Rökstuðningur dómnefndar

Í Onkel er allt smátt – ekki í þeim skilningi að það sé ómerkilegt eða lágkúrulegt, heldur er það almennt, staðbundið, auðmjúkt og ósnortið. Í Onkel sjáum við mikilfengleika hins smáa. Ung kona sem dreymir um að upplifa heiminn en finnst hún um leið bundin fötluðum og einmana frænda sem ól hana upp getur vissulega talist til „litlu hlutanna“ í kvikmyndalegu samhengi. Þrátt fyrir það hittir Onkel á þær stórbrotnu tilfinningar sem búa í einni af hinum ótal smáu ákvörðunum lífsins á hreinlega … hreinhjartaðan hátt. Án kvikmyndastjarna, með áhugafólki, á venjulegu býli, á lítilli mállýsku í gleymdu horni hins afskekkta Suður-Jótlands tekst leikstjóranum Frelle Petersen að segja sögu sem megnar að snerta hjarta alls heimsins.

Handritshöfundur/leikstjóri – Frelle Petersen

Frelle Petersen (1980) er sjálflærður handritshöfundur, leikstjóri, kvikmyndatökumaður og klippari, fæddur á Suður-Jótlandi. Á táningsárum hóf hann að gera tilraunir með myndir og frásagnir með myndbandsupptökuvél föður síns að vopni. Í sögum sínum beinir hann sjónum að fjölskyldutengslum og mannlegum samskiptum. Hann steig sín fyrstu skref í kvikmyndaiðnaðinum árið 2003 og lærði af því að fylgjast með leikstjórum á borð við Peter Schønau Fog (Listin að gráta í kór) og Tobias Lindholm og Michael Noer (R). Hann skrifaði og leikstýrði fjölda stuttmynda áður en hann gerði fyrstu myndina í fullri lengd, Hundeliv (2016), sem var sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Seattle og kvikmyndahátíðinni í Zlín.

Onkel er önnur kvikmynd hans í fullri lengd. Þessi raunsæissaga úr dönsku dreifbýli var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó 2019, þar sem hún hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar. Meðal annarra verðlauna sem myndin hefur hlotið eru Politiken-verðlaunin á CPH PIX, sem veitt eru besta nýja leikstjóranum, og áhorfendaverðlaun á Kosmorama-hátíðinni í Þrándheimi. Þriðja mynd Petersens, Resten av livet, verður framleidd af Zentropa. Petersen stofnaði framleiðslufyrirtækið 88miles ásamt Marco Lorenzen framleiðanda.

Framleiðandi – Marco Lorenzen

Marco Lorenzen (1976) hefur unnið í dönskum kvikmyndaiðnaði síðan 2005 við ýmis störf, svo sem framleiðslustjórn og tökustaðastjórn, og meðal annars getið sér gott orð fyrir vinnu sína að Lífvörðunum (Livvagterne), sjónvarpsþáttaröð DR sem hlaut Emmy-verðlaun, en þar hafði hann yfirumsjón með framleiðslu (e. line producer).

Hann framleiddi stuttmyndina Mommy (2013) eftir Frelle Petersen og að henni lokinni unnu þeir saman að sinni fyrstu mynd í fullri lengd, Hundeliv (2016), sem var valin til keppni á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Seattle. Því næst framleiddi Lorenzen myndina sem kom Petersen á kortið, Onkel (2019), sem hlaut aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Tókýó. Hann stofnaði framleiðslufyrirtækið 88miles ásamt Frelle Petersen leikstjóra.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Onkel

Enskur titill: Uncle

Leikstjórn: Frelle Petersen:

Handritshöfundur: Frelle Petersen

Framleiðandi: Marco Lorenzen

Aðalhlutverk: Jette Søndergaard, Peter Hansen Tygesen, Ole Caspersen

Framleiðslufyrirtæki: 88miles

Lengd: 105 mínútur

Dreifing í heimalandi: Øst for Paradis

Alþjóðleg dreifing: Alpha Violet