Sanna Tahvanainen og Jenny Lucander (myndskr.)

Dröm om drakar
Sanna Tahvanainen og Jenny Lucander (myndskr.): Dröm om drakar. Myndabók, Schildts & Söderströms, 2015

Dröm om drakar (Draumur um dreka) er myndabók sem ögrar fagurfræðilegri skynjun lesandans. Bókin fer með áleitin stef á djúphugulan og fallegan hátt og beinist að breiðum hópi lesenda á öllum aldri sem notið geta þessarar fáguðu fléttu úr orðum og myndum.

Sanna Tahvanainen og Jenny Lucander skrifa hér og teikna inn í hefð myndabóka sem rýna í æsku samtímans, sem markast af þeim hraða sem einkennir vinnumarkaðinn í dag. Þéttvaxin mamman í náttkjól frá Marimekko losnar ekki við streituna fyrr en Bella litla hvíslar titil bókarinnar, Dröm om drakar, í eyra hennar löngu eftir háttatíma. Þannig skapa höfundarnir samtímalýsingu sem vekur lesandann til umhugsunar. Velt er upp þeirri spurningu hvaða hlutverki barnið gegni þegar vinnutengd verkefni foreldranna hlaðast upp í seilingarfjarlægð á tölvuskjánum. Hjá Tahvanainen og Lucander fær barnið það hlutverk að hughreysta. Hvað eftir annað setur veröld hinna fullorðnu traust sitt á barnið, og barnið svarar með ímyndunaraflinu.

Fyrri myndabók Tahvanainen, Silva och teservisen som fick fötter (2011), fjallar einnig um samband mæðgna þar sem móðurinni fallast hendur. Textinn fetar meðalveg þess að skemmta lesandanum og vekja honum ugg í brjósti, meitlaður og mettaður í senn. Myndskreytingar fá mikið pláss og mörg af helstu sérkennum sögupersónanna sjást á myndunum. Í táknþrungnum draumaheimi lærir mamman að verða umhyggjusöm og eftirtektarsöm á nýjan leik þegar hún gætir dreka sem er nýkominn úr egginu.

Jenny Lucander gefur ýmislegt í skyn í myndum sínum, sem bera sterk einkenni samtímans. Hið lárétta form bókarinnar er nýtt til fulls. Að baki hússins sem mæðgurnar búa í bíður ævaforn dreki átekta en inni í húsinu kannast lesandinn við ýmsar neysluvörur nútímans. Stíllinn minnir á klippimyndir og er jafnframt ríkulegur og tær, þar sem mörg lög litadýrðar mynda safaríkt sögusvið. Samspil grænblárra og appelsínugulra tóna er sérlega lifandi. Allt verður þetta að haganlega samsettri og listrænt heillandi heild, sem jafnframt ber ljóðræn einkenni.

Fyrsta bók Sönnu Tahvanainen (f. 1975), ljóðabókin fostren, kom út árið 1994. Síðan hefur hún skrifað skáldsögur, pistla, útvarpsleikrit og sviðsleikrit, auk barnabóka. Nýjasta skáldsaga hennar, Bär den som en krona (2014), fjallar um Viktoríu drottningu frá líkamlegu sjónarhorni og fékk verðlaun sænska bókmenntafélagsins í Finnlandi (Svenska Litteratursällskapet). Jenny Lucander (f. 1975) er ein af þeim listamönnum sem eiga myndabækur á ferðasýningunni BY.

Hún hefur myndskreytt Flickan som blev varg eftir Sofiu Hedman (2014) og Singer (2012) eftir Katarinu von Numers-Ekman.