SIGU

SIGU
Ljósmyndari
Dida G. Heilmann
SIGU er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

SIGU er hinn nýi, spennandi hljómur á Norðurlöndum. Hjá tónlistarhópnum SIGU má finna nýja, grænlenska tónlistarstefnu þar sem tónlistargreinar á borð við rokk, popp, djassfönk og örlitla transtónlist koma saman í áhugaverðri blöndu og frásagnir af köldum veruleika hversdagsins eru sagðar af berskjaldaðri hreinskilni. Þó er einnig sagt frá öllu því fagra í lífinu svo að áheyrandinn skynjar tilvist ljóssins við enda ganganna. Þetta eru þarfir tónar, bæði á Grænlandi og úti í hinum stóra heimi.

SIGU skapar handverk sem best er lýst sem listaverki. Líkt og málverk þar sem stórum tilfinningum og upplifunum er komið til skila í litum. Og frá þessu öllu er sagt á svo frelsandi hátt að maður finnur fyrir því að vera á lífi.

Tónlist sveitarinnar er sannkallað eyrnakonfekt með afslappaðri söngrödd sem talar beint til hjartans og hljómsveitina skipar hópur fagfólks sem lætur ekkert reka á reiðanum.

Stíllinn gefur áheyrendum færi á að veita hljóðfærunum athygli, endurteknar tónaraðir á mismunandi hljóðfæri gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og alþjóðlegir hljómar úr píanói og blásturshljóðfærum eru í fullkomnum samhljómi við hina hefðbundnu grænlensku trommu, sem lýsir röð lota og atvika úr lífinu sjálfu. Textarnir ná yfir breitt svið og fjalla um hringrás lífsins, forfeður, gleði, sorg, sumar og ást.