Sofia Chanfreau og Amanda Chanfreau

Sofia Chanfreau och Amanda Chanfreau
Photographer
Mikael Morueta Holme
Sofia Chanfreau og Amanda Chanfreau (myndskr.): Giraffens hjärta är ovanligt stort. Myndabók, Schildts & Söderströms, 2022. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Vega er níu ára og hversdagur hennar iðar af spennandi dýrum í mismunandi litum og af ýmsum gerðum. Pabbi hennar sér ekki dýrin og líkar ekki að Vega tali um þau. Annað sem þau tala ekki um er mamma Vegu. Vega veit ekkert um hana og veltir fyrir sér hvort mamma hennar sé enn á lífi og hvar hún geti þá verið. Hektor móðurafi Vegu svarar heldur ekki spurningum hennar, en hann sér hins vegar öll litskrúðugu dýrin sem halda til í ræktarlega garðinum hans á Gíraffaey þar sem þau búa. Þar má finna skelúrka, farkóna, fjarfótunga og margar fleiri tegundir. Á hverjum degi er afinn heimsóttur af leynilegum „agentum“, sem sjá til þess að hann taki lyfin sín og skrifa leynilegar skýrslur. Dag nokkurn í skólanum fá börnin bréf frá jafnöldrum sínum á meginlandinu og Vega gerist pennavinkona stelpu sem býr í sirkus. Í garðinum hans afa hittir hún líka strák sem heitir Nelson og á risahund sem heitir Flor. Nelson safnar áhugaverðum staðreyndum í glósubókina sína og hjálpar Vegu að grafast fyrir um afdrif móður hennar. Þegar pabbi segir Vegu að hann hafi hitt nýja konu finnst henni öll tilveran frjósa, en til allrar hamingju kemst hún á sama tíma á slóð mömmu sinnar. Í heimatilbúnum kexbíl afa síns, sem blæs út kökum í stað pústreyks, leggur Vega upp í ferðalag í leit að mömmu sinni ásamt Nelson, afa og Flor.

 

Bókin er frumraun hinna álensku Chanfreau-systra, ævintýri sem er tímalaust og fullt af lífi. Rithöfundurinn Sofia (f. 1986) skrifaði söguna og húðflúrlistakonan og myndskreytirinn Amanda (f. 1983) gerði myndirnar. Blýantsteikningar Amöndu eru krökkar af smáatriðum og minna á hugmyndaríkan söguheim sænska myndskreytisins Hans Arnold, svo og blæbrigðaríkar myndskreytingar sænska myndabókahöfundarins Sven Nordqvist þar sem hver síða iðar af smádýrum. Hinn framandi myndheimur Amöndu er þó fyrst og fremst innblásinn af því tímabili sem hún bjó í Mexíkó og ekki fer á milli mála að systurnar eru báðar undir áhrifum annarra landa og menningarheima í sköpunarferli sínu. Töfraraunsæið sem rennur líkt og rauður þráður í gegnum frásögnina er einkennandi fyrir sagnahefð Rómönsku Ameríku þar sem fantasíukennd atriði birtast oft sem eðlilegir þættir í raunsæjum veruleika.

 

Hið sígilda ævintýri Sagan endalausa eftir Michael Ende kemur einnig upp í hugann, en þar flýr aðalpersónan þrúgandi tilveru með því að fljúga inn í furðuveröld á lukkudreka sem minnir á hund og er ekki ólíkur risahundinum Flor. Samfara þeirri hugmyndaauðgi sem einkennir bók Chanfreau-systra er auðvelt að bera kennsl á Álandseyjar og höfuðstaðinn Maríuhöfn í bæði texta og myndum. Myndin sem sýnir sjónarhorn fugls á flugi yfir Álandseyjum, þar sem furðudýrin fljúga á albatrosum, er í senn raunsæ og töfrum líkust. Hinir fantasíukenndu þættir í Giraffens hjärta är ovanligt stort („Hjarta gíraffans er óvenjulega stórt“, ekki útgefin á íslensku) gera frásögnina marglaga og gera börnum og fullorðnum kleift að túlka hana á mismunandi hátt. Þessi nýstárlega og einstaka bók hlaut Finlandia-verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2022 og heiðursviðurkenningu á Runeberg Junior-verðlaununum árið 2023.