Solstrand-yfirlýsingin

12.06.12 | Yfirlýsing
Norræn yfirlýsing um afnám stjórnsýsluhindrana milli norrænu landanna á sviði félags- og heilbrigðismála.

Upplýsingar

Adopted
12.06.2012
Location
Bergen

„Solstrand-yfirlýsingin“

Norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir sem funduðu dagana 11. - 12. júní 2012 á Solstrand hótelinu fyrir utan Björgvin vilja árétta mikilvægi þess að sameiginlegur norrrænn menntunar- og vinnumarkaður sé grunnstoð í norrænu samstarfi. Í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins leggja norrænu velferðarríkin grunn að sveigjanlegum og samkeppnishæfum vinnumarkaði þar sem aðlögunarhæfni er mikil. Mikilvæg forsenda frekari framþróunar er að tryggja að einstaklingar sem flytja yfir landamæri verði aldrei án góðrar heilbrigðis- og félagsþjónustu sökum þess eins að þeir nýttu rétt sinn til að starfa eða búa í öðru norrænu landi.

Norrænn sérfræðingahópur hefur frá haustdögum 2010 starfað á vegum embættismannanefndar um félags- og heilbrigðismál (EK-S) og embættismannanefndar um vinnumál (EK-A). Verkefni hópsins var að kanna stjórnsýsluhindranir á vinnumarkaði‚ í almannatrygginga- og lífeyriskerfi og í félagsþjónustu sem verða á vegi einstaklinga sem fara á milli norrænu landanna.

Í lokaskýrslu sérfræðingahópsins er farið yfir ákveðinn fjölda af stjórnsýsluhindrunum og lagt til hvernig megi ryðja þeim úr vegi. Margar stjórnsýsluhindranir sem fjallað er um í skýrslunni tengjast EES-löggjöf en hún gildir ekki aðeins innan Norðurlanda heldur einnig milli annarra EES-ríkja og Sviss. Auk þess að lýsa tilteknum stjórnsýsluhindrunum bendir hópurinn á mikilvægi þess að treysta áframhaldandi samstarf um að leysa þann áþreifanlegan vanda sem komið getur upp þegar einstaklingar flytja milli norrænu landanna.

Tekið er tillit til þess að norrænu löndin taka sjálf sínar pólitísku ákvarðanir og hafa ólíkar þarfir um leið og norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir skuldbinda sig til að fylgja starfinu eftir með því að meta vandlega niðurstöður skýrslunnar í löndunum sjálfum og í samstarfi ríkjanna með því markmiði að finna raunhæfar lausnir á stjórnsýsluvandanum. Meðmælum skýrslunnar verður fylgt eftir í samstarfs- og stjórnarnefndum en í norrænu samstarfi er einnig þörf á að vinna áfram að sameiginlegum skilgreiningum til að geta skorið úr hvenær um stjórnsýsluhindrun er að ræða og hvenær ekki.

Við hvetjum Svía sem gegna formennsku í norrænu samstarfi á næsta ári til að leggja fram framvinduskýrslu á fundi félags- og heilbrigðisráðherranna á árinu 2013.

Norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir munu taka höndum saman um að fylgja norrænu yfirlýsingunni eftir og ákveða aðgerðir sem þykja hentugar og færar þegar fram í sækir.

Solstrand við Björgvin, 12. júní 2012