Síðustu forvöð: Tillögur vegna umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021

04.05.21 | Fréttir
Tema miljöpriset fællesspisning Absalon
Photographer
Maria Albrechtsen Mortensen / Scanpix
Veist þú um einhvern sem þér finnst að eigi að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs? Þá eru nú síðustu forvöð – frestur til að senda inn tillögur rennur út miðvikudaginn 12. maí.

Á þessu ári renna umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs til aðila á Norðurlöndum sem hefur lagt umtalsvert framlag á vogarskálar þróunar á sjálfbærum matvælakerfum - úr hafi og jörð á borð og aftur til baka. Við þurfum öll að borða til að lifa. Þess vegna er mikilvægt að matvælakerfi okkar þjóni hlutverki sínu á umhverfislega, efnahagslega og félagslega sjálfbæran hátt. Sjálfbærni nær frá frumframleiðslu á diskinn og þar með frá hafi og jörð á borð og alla leið í endurvinnslu á allt frá lífrænum úrgangi til umbúða.

Veist þú um einstakling eða stofnun sem leggur sérstaklega mikið á sig til þess að stuðla að sjálfbærni í framleiðslu og neyslu matvæla? Sendu inn tillögu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í síðasta lagi 12. maí. Hver sem er getur sent inn tillögu og verðlaunaupphæðin nemur 300.000 dönskum krónum.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.

Mikil áskorun í vinnunni að heimsmarkmiðunum

Sjálfbær matvælakerfi styðja við nokkur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, meðal annars ábyrga neyslu og framleiðslu (12), aðgerðir í loftslagsmálum (13), líf í vatni (14) og líf á landi (15).

COVID-19-faraldurinn hefur auk þess sýnt okkur að kreppa getur komið illilega niður á alþjóðlegum framleiðslukeðjum. Meira ein tveir milljarðar manna eru háðir innfluttum matvælum, að minnsta kosti að hluta til. Þess vegna eru svæðisbundin og innlend sjálfbær matvælakerfi mikilvægir lyklar að félagslegri seiglu. Raunveruleg sjálfbærni krefst jákvæðra eða hlutlausra áhrifa matvælaframleiðslu á loftslags- og umhverfismarkmið.

Hver skapar áhrifaríkar og skapandi lausnir við þessari sameiginlegu áskorun? Sendu inn tillögu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Frestur rennur út 12. maí.

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í 27. sinn á þessu ári og árið 2021 er kastljósinu beint að norrænum verkefnum þar sem framlag til þess að tryggja sjálfbær matvælakerfi er umtalsvert. Hver sem er getur sent inn tillögur og verðlaunaupphæðin nemur 300.000 dönskum krónum.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar.

Tilkynnt verður um verðlaunahafann á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2. nóvember 2021.